Mótmælendur segjast hafa verið í rétti

Tjaldið á Austurvelli í gærkvöldi.
Tjaldið á Austurvelli í gærkvöldi. mbl.is/Golli

Hreyfingin Occupy Iceland, sem um helgina tjaldaði á Austurvelli, segist telja að lögregla hafi ekki haft rétt til að brjóta upp mótmælin því að almenningur hafi stjórnarskrárvarinn rétt til þess að koma saman vopnlaus.

Segist hreyfingin hafna því að sækja þurfi um leyfi fyrir því að koma saman í friðsamlegum tilgangi, jafnvel þótt það sé með tjöldum.

Lögreglan tók tjaldið niður í morgun. Fram kom í dag, að lögreglan brá á það ráð að skera tjaldið opið þegar maður, sem þar var inni, neitaði að opna það. Maðurinn var handtekinn í kjölfarið fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu.

Í tilkynningu frá Occupy Iceland, sem send var í kvöld, segir að um sé að ræða óformlega hreyfing almennings í sama anda og hafi sprottið upp um allan heim. Nú séu um 2300 Occupy búðir um allan heim þar sem fólk tjaldi eða komi saman til þess að mótmæla óréttlæti.

mbl.is

Bloggað um fréttina