Stutt í vöruskort á Ströndum

Útlit er fyrir að vöruskorts fari að gæta í útibúi Kaupfélags Steingrímsfjarðar í Norðurfirði ef ekki verður flogið í dag. Von er á vörum með flugi frá Reykjavík en ekki hefur verið flogið frá 24. október. Nú er þoka á Gjögri og ekki gott útlit með flug í dag, að sögn útibússtjóra Kaupfélags Steingrímsfjarðar í Norðurfirði.

Ragnheiður Edda Hafsteinsdóttir, útibússtjóri KS í Norðurfirði, sagði að mjólk hafi komið með vörubíl fyrir viku og enn sé eitthvað til af mjólk. Vegagerðin er að moka veginn norður í Árneshrepp en hann hefur verið lokaður. Það leysir þó ekki úr vöruskorti búðarinnar því nú eiga vörurnar að koma með flugi.

„Það er ekkert farið að vanta en það gæti farið að vanta vörur í dag ef ekki verður flogið. Þá fer að vanta mjólkina,“ sagði Edda. Hún sagði að vörurnar bíði á flugvellinum í Reykjavík en þær eiga að koma með fyrsta vöruflugi vetrarins. Vandinn er sá að flugvél Flugfélagsins Ernir, sem venjulega þjónar Gjögurflugvelli, er í viðgerð.

Pósturinn kemur með flugi og hefur enginn póstur borist frá 24. október, eins og fram kemur á fréttavef Jóns G. Guðjónssonar. Flugfélagið hefur reynt að halda uppi vöruflugi með eins hreyfils flugvél með einum flugmanni og verður hún að fljúga sjónflug. Ekki má selja farþegum sæti með þeirri vél. Edda sagði að ekki hafi viðrað til sjónflugs undanfarið.

„Við erum ekki sátt við það,“ sagði Edda. „En við vonum það besta þótt nú sé svartaþoka.“ Hún sagði að malbika þyrfti flugvöllinn á Gjögri svo hægt væri að sinna flugi þangað með stærri flugvélum sem geta flogið blindflug og flutt farþega en eru ekki gerðar fyrir malarvelli.

Verslunin í Norðurfirði er sú eina í Árneshreppi. Hún er opin fjóra daga í viku frá klukkan 13-17.

mbl.is