Á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í gær var samþykkt ályktun þess efnis að óska eftir samstarfi við ráðuneyti ferðamála um uppbyggingu snjóframleiðslu í Bláfjöllum. Þannig vilji sveitarfélögin á svæðinu taka höndum saman með ríkisstjórninni og byggja upp vetrarferðaþjónustu á Íslandi undir merkjum átaksins „Ísland allt árið“.
Á bloggi sínu segir Gunnar Axel Gunnarsson, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og fulltrúi í stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, að rétt um ár sé síðan borgarstjórinn Jón Gnarr viðraði þá hugmynd að loka ætti skíðasvæðinu í Bláfjöllum í nokkur ár til að spara borgarsjóði allt að hundrað milljónir króna. Féll hún í grýttan jarðveg hjá skíðaiðkendum. „Hugsunin á bak við hana var og er engu að síður eðlileg og réttmæt. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá er veruleikinn sá að umrætt skíðasvæði hefur í raun ekki sinnt hlutverki sínu um langt árabil. Ástæðan er einföld. Það vantar snjó,“ skrifar Gunnar Axel.
Hann segir að eins og hlutum sé háttað í dag standi sveitarfélögin á svæðinu frammi fyrir tveimur kostum. „Annaðhvort segja þau sig alfarið frá þessum rekstri, sem í raun myndi þýða lokun svæðisins til frambúðar eða þau gera nauðsynlegar ráðstafnir til þess að tryggja rekstrargrundvöll þess. M.ö.o. það er engin tímabundin lausn í stöðunni, engin pólitískt þægileg hjáleið, hvorki fyrir borgarstjórann né aðra. Það er heldur ekki hægt að þæfa málið lengur með vísan til þess að ekki liggi fyrir nægjanlega ábyggilegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun. [...] Reyndar bendir flest til þess að með snjóframleiðslu geti rekstur svæðisins orðið svo til sjálfbær á tiltölulega skömmum tíma, aðeins nokkrum árum. Á mannamáli þýðir það að hægt yrði að nota þá miklu fjármuni sem sveitarfélögin leggja til svæðisins á hverju ári í einhverja aðra þjónustu, t.d. rekstur leik- og grunnskóla.“
Gunnar Axel segir að það sem hafi staðið í vegi fyrir snjóframleiðslu í Bláfjöllum að undanförnu hafi einkum verið óvissa um möguleg umhverfisáhrif hennar. „Nú liggur hins vegar fyrir áhættumat sem framkvæmt var af verkfræðistofunni Mannvit að beiðni Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt niðurstöðum matsins stafar engin hætta á mengun frá snjóframleiðslu sem slíkri.“
Nú liggi því fyrir að taka ákvörðun um hvort skattgreiðendur eigi að halda áfram að borga hundruðir milljóna króna á hverju ári fyrir skíðasvæði sem alltaf er lokað eða hvort taka eigi næstu skref í uppbyggingu þess og tryggja að svæðið þjóni hlutverki sínu.
Pistil Gunnars Axels má lesa í heild sinni hér.