Segja lýsingar Guðrúnar Ebbu rangar

Móðir Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur og systkini hennar segja lýsingar hennar af heimili Ólafs Skúlasonar biskups og fjölskyldu rangar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Ebba Sigurðardóttir, Sigríður Ólafsdóttir og Skúli S. Ólafsson hafa sent til fjölmiðla en nýverið kom út bók Guðrúnar Ebbu þar sem hún sakar föður sinn um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi árum saman.

„Við undirrituð, systkin og móðir Guðrúnar Ebbu, gerum alvarlegar athugasemdir við frásögn hennar í nýútkominni bók og viðtölum við fjölmiðla. Í upphafi bókarinnar segist hún ekki tilheyra lengur fjölskyldunni. Það var alfarið hennar ákvörðun og ekki í samræmi við vilja okkar.

Lýsing hennar á heimilislífi okkar er röng. Heimilið okkar einkenndist ekki af kúgun af hálfu föður okkar og eiginmanns Ólafs Skúlasonar.

Mál þetta hefur verið okkur og fjölskyldu okkar afar þungbært. Fram til þessa höfum við haldið okkur til hlés í þessari umræðu í þeirri von að henni myndi linna fyrr en síðar. Nú er svo komið að við getum ekki lengur orða bundist. Við vörum við einhliða málflutningi og þöggun í þessu viðkvæma máli.

Við hvetjum til þess að fram fari heiðarleg og fagleg umræða um bældar minningar af þeim toga sem Guðrún Ebba segir liggja til grundvallar ásökunum sínum. Við teljum það siðferðilega skyldu okkar að standa vörð um þá sem ekki geta varið sig sjálfir og leiðrétta rangfærslur er okkur varða. Fyrst og fremst þá inniheldur frásögn Guðrúnar Ebbu lýsingar á heimilislífi og atburðum sem ekkert okkar þriggja kannast við.

Ebba Sigurðardóttir, Sigríður Ólafsdóttir og Skúli S. Ólafsson"

mbl.is

Bloggað um fréttina