Tíu milljóna króna trjáskipti

Trjáskiptin sem eiga sér nú stað í kringum Ráðhús Reykjavíkur kosta borgina yfir tíu milljónir króna. Borgarráð samþykkti í febrúar að skipta út öspum við Tjarnargötu og Vonarstræti og víðar í miðbænum og planta í staðinn gráreyni, garðahlyn og skrautreyni. „Það voru settar á þessu ári tíu milljónir í götutré. Það fór svolítill tími í undirbúning og meiri peningar í það heldur en við áætluðum. Ég á nú von á að þetta fari eitthvað framúr þessum tíu milljónum, en það er náttúrulega undirbúningur sem nýtist okkur í framhaldinu. Í okkar huga var þetta ekki bara spurning um að skipta um trén heldur einnig að bæta ástandið fyrir trén og gera þetta almennilega," segir Þórólfur Jónsson garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar.

Aspirnar voru orðnar fimmtán til tuttugu ára gamlar og komnar með stórt rótarkerfi sem ógnaði hellulögnum.

Samkvæmt Þórólfi var líka samþykkt að skipta út trjágróðri við Sóleyjargötu og Laugaveg en ekki er ætlunin að fara í þær framkvæmdir núna. „Við erum ekki að fara í það núna, en við höldum áfram eftir því sem fjárveitingar leyfa. Á Laugaveginum og víðar skapast hættuástand fyrir gangandi vegfarendur þar sem öspin hefur verið notuð. Við gerðum úttekt á öllum trjám og hún sýnir að trén eru víða illa farin og líður illa, þannig að við munum halda áfram að skoða hvað við gerum, en við gerum þetta auðvitað í áföngum," segir Þórólfur.

Trjáskiptunum við Vonarstræti og Tjarnargötu á að vera lokið 25. þessa mánaðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert