Tjöldin ekki til prýði

Tjöldin á Austurvelli.
Tjöldin á Austurvelli. mbl.is/GSH

„Að mínu mati er þetta óásættanlegt,“ segir Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, um tjaldbúðir Occupy-hreyfingarinnar á Austurvelli en forsætisnefnd hefur óskað eftir því við borgaryfirvöld að leyfi fyrir þeim verði afturkallað.

Ragnheiður segir nefndina hafa fengið þær upplýsingar að garðyrkjustjóri borgarinnar hafi heimilað tjaldbúðirnar en hún segir ásýnd þeirra ekki mikla prýði fyrir miðborgina.

„Þetta snýst um ásýnd Austurvallar. Alveg óháð því hver situr á þingi þá er þetta fyrir framan stofnunina Alþingi og hér er líka Dómkirkjan og þetta er bara ömurlegt,“ segir Ragnheiður.

Hún bendir auk þess á að víðast hvar í heiminum hafi Occupy-hreyfingin mótmælt fyrir utan fjármálastofnanir en ekki fyrir framan þinghúsin. Hún segir forsendur leyfisins ekki liggja fyrir.

„Lítur fólk svo á að þetta sé gjörningur? Og eiga þá bara hvers konar gjörningar að geta farið fram á Austurvelli og á öðrum opinberum stöðum í borginni?“ spyr hún. Óljóst sé hvað tjöldin eigi að fá að vera þarna lengi.

Ragnheiður segir ákvörðunina á endanum vera Reykjavíkurborgar en gerir fastlega ráð fyrir því að svör berist frá borginni um málið á næstunni.

mbl.is