25 þúsund manns séð Hvað ef

Gestir sýningarinnar í kvöld höfðu tækifæri á að skoða fíkniefni …
Gestir sýningarinnar í kvöld höfðu tækifæri á að skoða fíkniefni og tæki til neyslu, sem lögreglumaður hafði til sýningar, um leið og hann var með fræðslu í forvarnaskyni. mbl.is/Árni Sæberg

Stórsýning var á leikritinu „Hvað ef“ á stóra sviði Þjóðleikhússins í kvöld, í tilefni þess að 25 þúsund manns hafa séð verkið frá upphafi árið 2005, þar af 10 þúsund á sviði Þjóðleikhússins. Um er að ræða forvarnarverkefni fyrir grunnskólanemendur á unglingastigi, sem boðið er ókeypis í leikhús, með styrk fyrirtækja, nú síðast Íslandsbanka þennan sýningarvetur.

Viðstaddir sýninguna í kvöld voru Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og fulltrúar samstarfsaðila verkefnsins frá upphafi, m.a. frá Reykjavíkurborg, lögreglunni, VÍS, SÁÁ, Fræ og ÍOGT. Sýningarnar hafa einnig verið í samstarfi við grunnskólana og unglingum boðið á sýninguna eftir að hafa fengið fræðslu um forvarnir gegn fíkniefnum og afleiðingar fíkniefnaneyslu.

Verkefnið hefur verið í gangi í nokkur ár, og hófst í Hafnarfjarðarleikhúsinu 2005. Síðan þá hefur það verið sýnt í Borgarleikhúsinu, Hofi á Akureyri, Þjóðleikhúsinu og næst verður farið með sýninguna austur á Egilsstaði. Á vef verkefnisins segir að „Hvað ef“ sé leiksýning sem notast við leik, söng, ljóð og tónlist til fræðslu. Þar sé á mjög nýstárlegan og skemmtilegan hátt farið yfir kaldar staðreyndir varðandi neyslu vímuefna, eineltis, sjálfsmorða og fleira.

Markmiðið er að sýna unglingum fram á að þeir hafi val, og að sakleysislegar „stundarhrifsákvarðanir“ geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Það að reykja eina hasspípu eða vera í félagskap þeirra sem leggja stund á fíkniefnaneyslu geti hrundið af stað dapurlegri atburðarás. Það að segja já við E-pillu geti verið fyrsta skrefið á langri og miður fallegri ævisögu, eins og segir á vef „Hvað ef“.

Leikstjóri er Gunnar Sigurðsson og leikarar eru þau Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Ólöf Jara Skagfjörð og Ævar Þór Benediktsson. Fræðsluhlið verksins er að öllu leiti unnin í samstarfi við fagaðila, þ.e. Þórarinn Tyrfingsson hjá SÁÁ, Lýðheilsustöð, VÍS og fleiri.

Höfundar texta, ljóða og tónlistar eru Einar Már Guðmundsson, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Valgeir Skagfjörð og Gunnar Sigurðsson,

Leikhópurinn sem stóð að fyrstu uppsetningunni á Íslandi árið 2005 voru Felix Bergsson, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Brynja Valdís Gísladóttir og Orri Huginn Ágústsson.

Sýningunni vel tekið

Guðmundur Ingi segir í samtali við mbl.is að sýningunni hafi í gegnum tíðina verið mjög vel tekið hjá unglingum, kennurum þeirra og foreldrum. Frekar en að fara með sýninguna út í skólana hafi það virkað mun betur að fá unglingana í leikhúsið og boðskapurinn þannig komist betur til skila.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarpaði sýningargesti í Þjóðleikhúsinu í kvöld.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarpaði sýningargesti í Þjóðleikhúsinu í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is