Níddust á 13 ára dreng í veiðiferð

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness.

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt fjóra skipverja á fiskiskipi í skilorðsbundið fangelsi fyrir að beita 13 ára dreng, sem fór í 10 daga veiðiferð með skipinu, kynferðislegri áreitni og níðast á honum með margvíslegum hætti.

Einn skipverjinn var dæmdur í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi, einn í 2 mánaða og tveir í 45 daga skilorðsbundið fangelsi. Þeir játuðu sök að hluta en gerðu lítið úr málinu og eftir einum er haft að þetta hafi verið „svona væg busun“.

„Fín stemmning"

Þeir lýstu stemmingunni um borð þannig, að hún hefði verið fín. Menn hafi verið að klæmast, en það hefði ekki verið neitt alvarlegt. Þá hefðu þeir riðlast hver á öðrum og gjarnan verið slegið létt í rass þeirra, sem beygðu sig niður en það hafi ekki verið neitt kynferðislegt.

Einn mannanna var m.a. sakfelldur fyrir að bera kynfæri sín og ota þeim að andliti drengsins þegar félagi hans sagðist ætla að „punga hann“. Annar var sakfelldur fyrir að láta drenginn horfa á klámmynd. Drengurinn lýsti því að honum hefði þótt myndin ógeðsleg og hann hafi reynt að halda fyrir eyru sín og kodda fyrir andliti sínu.

Faðir drengsins var skipverji á skipinu og varð hann vitni að sumu því sem gert var við son hans. Haft er eftir honum í dómnum, að honum hefði fundist hann hafa brugðist drengnum með því að grípa ekki fyrr inn í en raun bar vitni. Hefði hann verið á sjó í 25 ár og aldrei upplifað hegðun eins og hafi tíðkast um borð í þessu skipi.

Hann hefði hins vegar verið hræddur um að það kæmi niður á vinnu hans um borð ef hann myndi gera eitthvað og benti á að einn hinna ákærðu væri náskyldur skipstjóranum og annar besti vinur hans.

Niðurlægður með orðum og gerðum

Í dómnum, sem fjölskipaður héraðsdómur kvað upp, er m.a. vísað í vottorð sálfræðings þar sem segir, að sjóferðin hafi tekið verulega á drenginn. Hann hafi verið sjóveikur allan tímann og grín gert að honum vegna þess. Hann hafi verið niðurlægður með orðum og gerðum og hann hafi þurft að þola ýmsa áreitni sem hafi bæði meitt hann, niðurlægt og gert hann verulega hræddan, jafnvel um líf sitt. Hann hafi stöðugt þurft að vera á varðbergi og viðbúinn hverju sem væri, en það væru mjög kvíða­vekjandi aðstæður.

Hann hafi upplifað algert hjálparleysi þar sem hann hafi ekki ráðið líkamlega við skipverjana og verið hættur að búast við því að einhver kæmi honum til bjargar þar sem þeir hefðu allir brugðist honum að því leyti. 

Í tveimur tilvikum hafi drengurinn orðið verulega hræddur. Annars vegar þegar hann hafi haldið að honum yrði nauðgað og hins vegar þegar honum hafi verið haldið á hvolfi út fyrir borðstokk skipsins. Sú upplifun að trúa því eitt augnablik að maður sé hugsanlega að fara að deyja eða alvarlega limlestur geti haft langvarandi og alvarlegar sálrænar afleiðingar í för með sér. Sú upplifun sé t.d. forsenda greiningar áfallastreituröskunar.

Fyrir dómi sagði sálfræðingurinn, að drengnum hafi liðið mjög illa og þessir atburðir hafi haft mikil áhrif á hann. Drengurinn væri mjög alvörugefinn og ábyrgðarfullur miðað við aldur og hafi ríka réttlætiskennd. 

Drengurinn hefði orðið fyrir miklum vonbrigðum með að enginn hjálpaði honum og hann hafi átt erfitt með tilfinningar sínar gagnvart föður sínum sem hafi verið áhorfandi. Tilfinningar og mikil vanlíðan drengsins komi heim og saman við að hann hafi orðið fyrir þessum brotum. Einnig  sagði sálfræðingurinn, að drengnum hafi fundist að ef ekkert yrði gert í málinu þá væri eins og hann væri einskis virði. Það skipti hann því máli að vera trúað.    

Auk fangelsisdómanna voru fjórmenningarnir dæmdir til að greiða sakarkostnað, 672 þúsund krónur.

Kannast ekki við busanir á skipum

Dómur Héraðsdóms Reykjaness

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert