Fjármálaráðherra hefur lagt fram tillögur um nýtt kolefnisgjald á eldsneyti í föstu formi og segja hagsmunaaðilar að verði þær að veruleika muni þær stofna rekstrinum í voða. Ljóst sé að kolefnisskatturinn verði hærri en í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu og samkeppnisstaðan muni því raskast mjög.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að áætlanir bæði ThorSil og Íslenska kísilfélagsins um framleiðslu á kísil hérlendis eru einnig í uppnámi þar sem skattlagningin gæti gert væntanlega arðsemi af rekstrinum að engu. Um 110 manns munu fá vinnu hjá Íslenska kísilfélaginu í Helguvík.
Heimildarmenn Morgunblaðsins segja ekkert samráð hafa verið við iðnfyrirtæki eða sjávarútvegsfyrirtæki áður en tillagan um hækkun kolefnisskattsins og framlengingu skatts á raforku var lögð fram. Ennfremur hafi hún komið flatt upp á ráðamenn í iðnaðarráðuneytinu.
Í desember 2009 undirrituðu ráðherrar ásamt hagsmunaaðilum yfirlýsingu þar sem hinir síðarnefndu sættu sig við að greiða sérstakan raforkuskatt umfram lagaskyldu. Það gerðu þeir vegna loforðs um að skatturinn félli niður í árslok 2012. En nú á hann að verða varanlegur.