Stefnulaus og þverklofinn

Björn Valur Gíslason.
Björn Valur Gíslason.

Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, fjallar um landsfund Sjálfstæðisflokksins á vef sínum og segir að flokkurinn sé stefnulaus og þverklofinn í stærstu málum samtímans og leiddur áfram af svo til umboðslausum formanni.

„Eina markverða atkvæðagreiðslan sem fram fór um stefnumál flokksins, þ.e. um afstöðu flokksins til ESB var endurtekin þar til hún var forystunni þóknanleg. Eftir þær æfingar allar veit nú hinsvegar ekki nokkur sála hver raunveruleg stefna flokksins er í þeim málum," segir Björn Valur.

Þá segir hann, að stóru tíðindin séu þau að núverandi formaður flokksins hafi rétt staðið af sér mótframboð og standi veikari eftir en nokkru sinni.

„Í raun má segja að Bjarni Benediktsson hafi verið settur á bið á meðan leitin af nýjum formanni stendur yfir. Það eitt að hann skuli rétt slefa yfir 50% atkvæða á móti borgarfulltrúa sem situr í minnihluta eftir eina verstu útreið sem flokkurinn hefur fengið í borginni, segir meira en flest annað um veika stöðu hans og vandræðaganginn í flokknum," segir Björn Valur á vef sínum.

mbl.is