Slæm umgengni á Austurvelli

Drasl eftir mótmælendur við Austurvöll.
Drasl eftir mótmælendur við Austurvöll. mbl.is/Sigurgeir S.

Borið hefur á nokkuð slæmri umgengni við tjaldbúðir mótmælenda, sem kenna sig við Occupy Reykjavík, á Austurvelli. S. Björn Blöndal, aðstoðarmaður borgarstjóra, segist ekki vita til að kvörtun hafi borist vegna málsins en í leyfinu sem mótmælendunum var veitt til að tjalda við Alþingishúsið var kveðið á um góða umgengni.

Leyfið er veitt til skamms tíma í senn og hefur verið endurnýjað nokkrum sinnum eftir að það var gefið fyrst út. „Leyfið er nú í raun útrunnið, eftir því sem ég best veit,“ segir Björn. Það hafi nýverið runnið út og ekki verið sótt um endurnýjun á því, eftir því sem Björn viti til.

Mótmælendur verða að yfirgefa svæðið á næstu dögum því um komandi helgi verður fjölskylduskemmtun á Austurvelli í tengslum við tendrun ljósanna á Óslóartrénu og þarf grasið tíma til að jafna sig áður en skemmtunin fer fram.

mbl.is