Spjaldtölva jólagjöfin í ár

Spjaldtölvur munu væntanlega leynast í einhverjum jólapökkum í ár
Spjaldtölvur munu væntanlega leynast í einhverjum jólapökkum í ár Reuters

Rannsóknasetur verslunarinnar spáir því að að jólaverslunin aukist um 2,5% frá síðasta ári. Leiðrétt fyrir verðhækkunum er spáð samdrætti um 2% að raunvirði. Jólagjöfin í ár er, að sögn sérstakrar dómnefndar á vegum rannsóknarsetursins, spjaldtölva.

Rökstuðningur dómnefndar er að spjaldtölvan höfði til fólks á öllum aldri, allt frá ungum börnum til ömmu gömlu og afa.

„Ástæðan er að spjaldtölvan er fyrirferðarlítil með snertiskjá sem gerir hana einkar auðvelda í notkun. Spjaldtölvan uppfyllir kröfur notenda um að vera alltaf tengdir við netið og geta þannig nýtt sér samskipti gegnum samfélagsmiðla og símatengingar. Hún veitir nýja möguleika á leikjum, að hlusta á tónlist og stunda aðra dægradvöl. Þá eru rafbækur í spjaldtölvum mjög að ryðja sér til rúms og nýir notkunarmöguleikar eru kynntir daglega. Spjaldtölvur má bæði nota í leik og starfi.

Sem dæmi um vinsældir spjaldtölvunnar er að fullt er út úr dyrum á notendanámskeiðum sem einn helsti söluaðila þeirra hér á landi heldur reglulega. Þar er samankomið fólk á öllum aldri og af öllum gerðum og stærðum. Spjaldtölvur eru dýrar og því má gera ráð fyrir að jólagjöfin í ár verði að þessu sinni gjöf til allrar fjölskyldunnar eða fleiri sameinist um eina gjöf. Töluverð aukning hefur orðið í sölu á raftækjum að undanförnu og velta rafrækjaverslana hefur verið mun meiri það sem af er þessu ári en síðastliðin tvö ár. Þetta gefur vísbendingu um að landsmenn séu að taka við sér og séu tilbúnir að endurnýja tæknibúnað fjölskyldunnar," segir í tilkynningu.

Síðustu þrjú ár hefur velta jólaverslunar dregist saman að raunvirði. Mestur var samdrátturinn árið 2008 eða um 19% að raunvirði. Á síðasta ári var samdrátturinn kominn niður í tæp 3%.

„Ýmis teikn eru á lofti sem benda til þess að jólaverslunin geti hugsanlega orðið meiri en spá Rannsóknasetursins gerir ráð fyrir. Þannig hefur orðið veruleg aukning í kortaveltu milli ára og væntingavísitala Gallup var 66% hærri í október síðastliðnum heldur en í sama mánuði í fyrra. Meginforsendur spár Rannsóknaseturs verslunarinnar er hins vegar raunveruleg veltuþróun smásöluverslunar það sem af er árinu," segir í spá Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Meðaleyðsla í jólagjafir 38 þúsund krónur

Áætlað er að heildarvelta smásöluverslana í nóvember og desember verði tæplega 60 milljarðar króna án virðisaukaskatts.

Ætla má að hver Íslendingur verji að meðaltali um 38.000 kr. til innkaupa sem rekja má til jólahaldsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert