KFS var ekki með leyfi

Keflavík Flight Services (KFS), flugafgreiðslufyrirtækið sem Iceland Express sagði upp samningi sínum við sl. mánudag, hafði ekki afgreiðsluleyfi á Keflavíkurflugvelli að sögn Heimis Más Péturssonar, upplýsingafulltrúa Iceland Express, og fékkst það staðfest hjá Flugmálastjórn.

Af þeim sökum starfaði KFS í skjóli flugrekstrarleyfis Astraeus og þegar það flugfélag komst í þrot sl. mánudag hafði KFS ekki lengur heimild til að starfa á Keflavíkurflugvelli.

„KFS gat því ekki staðið við samninginn við okkur,“ segir Heimir Már í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag, og bætir við að eigandi KFS hafi heitið því við undirritun samninga sl. vor að vera kominn með afgreiðsluleyfi í júní sl. Hefði þetta leyfi verið komið í hús hefði KFS getað starfað áfram á vellinum. Að sögn Heimis hafði KFS heldur ekki starfsmann til að stjórna starfseminni og var ekki með tilbúinn afísingarbúnað fyrr en í byrjun október sl.

KFS var stofnað fyrr á árinu eftir að Iceland Express sagði upp samningi sínum við Airport Associates, eða Vallarvini. Eigandi KFS, Hilmar Hilmarsson, er ósáttur við framkomu IE og íhugar að leita réttar síns en hann gerði samning við IE til sex ára um þjónustu við vélar félagsins á Keflavíkurflugvelli. KFS hafði engan samning við önnur flugfélög og hefur sagt upp öllum sínum starfsmönnum, 32 að tölu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: