Meirihlutinn vill Ólaf Ragnar áfram

Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson. Reuters

Rétt rúmur helmingur þjóðarinnar segir það koma til greina að kjósa Ólaf Ragnar Grímsson í næstu forsetakosningum ef hann gefur kost á sér. Kemur þetta fram í nýrri könnun sem MMR gerði fyrir Viðskiptablaðið.

Af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar sögðu 53,7% það koma til greina að kjósa Ólaf Ragnar en 46,3% sögðu það ekki koma til greina. Fylgi Ólafs Ragnars er meira hjá körlum en konum, en 60,1% karla sögðu það koma til greina að greiða honum atkvæði, en hjá konum var hlutfallið 46,4%.

Þá er fylgi við Ólaf áberandi meira hjá yngstu kjósendunum, en meðal fólks á aldursbilinu 18-29 ára segja 70,8% það koma til greina að kjósa hann. Fylgi hans meðal fólks á aldrinum 30-49 ára er 53,0% og 40,3% meðal fólks á aldrinum 50-67 ára.

Landsbyggðarfólk er einnig líklegra til að kjósa Ólaf Ragnar en fólk á höfuðborgarsvæðinu. Fylgi hans á höfuðborgarsvæðinu er 48,2%, en á landinu er það 62,1%.

Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hrifnastir af Ólafi Ragnari

Ólafur Ragnar nýtur mests stuðnings meðal stuðningsmanna Framsóknar, en 85,1% þeirra segja það koma til greina að kjósa Ólaf í næstu forsetakosningum. Þá er hann með 64,2% fylgi meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins. Minnst er fylgið við forsetann hjá stuðningsmönnum Samfylkingarinnar, en aðeins 24,8% þeirra segja það koma til greina að kjósa hann í næstu forsetakosningum. Fylgið meðal stuðningsmanna Vinstri-grænna er 34,5%. Spurðir voru 879 í könnuninni, 75% tóku afstöðu, 23,7% sögðust ekki vita og 1,4% vildu ekki svara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert