Spáir 2,4% hagvexti á næsta ári

mbl.is/Ómar

Hagstofa Íslands segir í nýrri þjóðhagsspá, sem nær til áranna 2011 til 2016, að gert sé ráð fyrir að landsframleiðsla aukist um 2,6% á þessu ári og 2,4% 2012. Vöxt landsframleiðslu megi rekja til aukinnar einkaneyslu og fjárfestingar.

Þá segir að samneysla dragist aftur á móti saman um 1,3% á árinu en taki við sér að nýju árið 2014.

Hagstofan segir að nokkur verðbólga hafi verið á fyrri hluta ársins 2011 og laun hafi hækkað meira en áður hafi verið reiknað með.

Þrátt fyrir það hafi hægt á verðbólgu seinni hluta ársins og sé nú reiknað með að meðaltalsverðbólga 2011 og 2012 verði rétt rúm 4% árlega en verði eftir það í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans, sem er 2,5%.

Hagstofan gaf síðast út þjóðhagsspá 8. júlí síðastliðinn og er ráðgert að gefa út næstu spá í apríl 2012.

„Hagvöxtur verður 2,6% árið 2011 eftir samtals um ellefu prósenta samdrátt frá 2008. Að baki þessum vexti standa aukning einkaneyslu um 3,1% og fjárfestingar um 8,5%. Samneysla dregst saman þriðja árið í röð og verður samdráttur samneyslu þá orðinn samtals u.þ.b. 6,5%.

Árið 2012 er áfram reiknað með hagvexti sem nemur 2,4% vegna aukningar einkaneyslu um 3% og fjárfestingar um 16,3%, meðan samneysla dregst saman um 0,9%.

Eftir 2013 er reiknað með að vöxtur landsframleiðslu og einkaneyslu verði nærri 3% öll árin. Frá 2015 dregur úr vexti fjárfestingar en stóriðjufjárfesting verður byrjuð að dragast saman 2014. Samneysla stendur nokkurn veginn í stað 2013 en vex frá 2014,“ segir í skýrslu Hagstofunnar.

Þjóðhagsspá Hagstofunnar

mbl.is

Bloggað um fréttina