Harkalegt að útiloka Huang

Tryggvi Þór Herbertsson.
Tryggvi Þór Herbertsson.

Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, segir niðurstöðu innanríkisráðherra um að hafna að selja félagi í eigu Huangs Grímsstaði á Fjöllum ansi afgerandi. Hann segist hafa viljað sjá að ríkið hefði gengið til samninga um einhvers konar lausn. Til að mynda að selja Huang land undir starfsemina og gera leigusamning um hluta jarðarinnar.

„Ég verð að segja að mér finnst þetta ansi harkalegt að útiloka hann algjörlega en ég aftur á móti skil að það sé erfitt að selja 300 ferkílómetra til útlendinga.“

Tryggvi Þór segir að með því að uppbygging hefði verið leyfð á Grímsstöðum hefði verið hægt að byggja upp ferðaþjónustu í kringum starfsemina, til að mynda í Þingeyjarsýslum sem hafa verið afskiptar af stjórnvöldum. Allt sem sýslunum hefur verið lofað af stjórnvöldum hefur verið svikið, að sögn Tryggva Þórs.

Hann bendir á að margar lausnir hafi verið fyrir hendi. Til að mynda að ríkið hefði keypt landið og leigt Huang það til 99 ára.

Svo er ekkert sem útilokar það að Huang stofni félag í Evrópu og kaupi Grímsstaði og þá getur enginn skipt sér af.

mbl.is