Stóra kvótafrumvarpið mikið breytt

Mbl.is/Brynjar Gauti

Ákvæði um bann við veðsetningu aflaheimilda, sem voru í frumvarpi að breytingu laga um stjórn fiskveiða í vor, hefur verið fellt út í drögum að nýju frumvarpi sem sjávarútvegsráðuneytið birtir í dag. Talsvert aðrar áherslur eru í drögunum en voru frumvarpi sem lagt var fram á þingi í vor.

Í vor lagði sjávarútvegsráðherra fram frumvarp sem fól í sér ný heildarlög um stjórn fiskveiða. Nú leggur hann hins vegar fram frumvarp um breytingar á núverandi lögum.

Meðal helstu breytinga sem gerðar hafa verið má nefna að frumvarpið í vor kvað á um bann við veðsetningu aflaheimilda en ekkert er minnst á veðsetningu í frumvarpinu, eins og vinnuskjal frá ráðuneytinu, sem birt var nú síðdegis, lítur út.

Þá er nú kveðið á um að samningar um nýtingarleyfi á aflaheimildum verði í upphafi að jafnaði til 20 ára, og að nýtingarleyfishafi eigi rétt á viðræðum um endurskoðun og hugsanlega framlengingu samnings. Í frumvarpinu í vor var lagt til að nýtingarleyfið væri að jafnaði til 15 ára.

Einnig hafa ákvæði um framsal aflaheimilda á milli útgerðarfyrirtækja og skipa tekið  breytingum og í stað þess að í fyrstu málsgrein ákvæðis um það sé skýr meginregla um bann við framsali aflaheimilda er nú tekið fram að slíkt framsal sé bundið skilyrðum og takmörkunum sem svo eru taldar upp í ítarlegu máli.

Drög að nýju frumvarpi, ásamt athugasemdum og álitsgerðum, liggja nú frammi á vef ráðuneytisins þar sem hagsmunaaðilum og öllum almenningi gefst kostur á að kynna sér það og koma fram með ábendingar og athugasemdir. Mikill ágreiningur varð um fyrra frumvarpið sem lagt var fyrir í vor. Ágreiningurinn náði  inn í raðir allra þingflokka og fékk frumvarpið afgreiðslu á síðasta þingi. Það frumvarp var tillaga um heildarendurskoðun á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Nýju drögin eru hins vegar lögð fram sem frumvarp til breytinga á núgildandi lögum.

Í starfshóp ráðuneytisins voru Aðalsteinn Baldursson, formaður Verkalýðsfélagsins Framsýnar á Húsavík, Atli Gíslason, hrl. og alþingismaður, Jóhann Guðmundsson skrifstofustjóri og Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóri FISK á Sauðárkróki.

Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, heildarendurskoðun, má lesa hér.

Frumvarpið frá vorþingi má lesa hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert