Gagnrýna tillögu um Palestínu

Ólöf Nordal, Bjarni Benediktsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir á landsfundi …
Ólöf Nordal, Bjarni Benediktsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrr í þessum mánuði. mbl.is/Golli

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálanefnd gera margvíslegar athugasemdir við tillögu um viðurkenningu á sjálfstæði Palestínu. Flokkurinn styður svokallaða tveggja ríkja lausn en gerir athugasemdir við tímasetningu, aðdraganda málsins, vinnulag og einhliða framsetningu málsins.

Tillagan er á dagskrá Alþingis í dag, en aðrir flokkar á Alþingi hafa lýst því yfir að þeir ætli að styðja tillöguna.

Bjarni Benediktsson og Ragnheiður Elínar Árnadóttir, sem mynda minnihluta í nefndinni, segja umhugsunarefni að ríki eins og Noregur, sem hafa beitt sér með hvað virkustum hætti fyrir lausn deilunnar, hafa ekki viljað taka það skref sem tillagan gerir ráð fyrir að Ísland stígi. „Röksemdir þessara ríkja eru skýrar. Þar er lögð áhersla á að styðja við friðarferlið og að skilgreind viðmið þurfi að vera uppfyllt áður en til viðurkenningar kemur: að endanleg niðurstaða verði komin í samningaviðræðurnar, að ljóst sé að Palestínuríki muni fylgja áætlunum Sameinuðu þjóðanna eða þær séu grundvöllur stofnunar ríkisins, ríkið muni virða stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasamninga og að Palestínumenn séu tilbúnir til að takast á við þau verkefni og skyldur sem fylgja því að vera fullvalda, sjálfstætt ríki með trausta innviði. Eins hafa þessar þjóðir fjallað um mikilvægi þess að leiðtogar Palestínumanna lýsi því yfir að þeir muni standa vörð um grunngildi lýðræðis og mannréttinda á sama hátt og leiðtogar Ísraels gerðu við stofnun Ísraelsríkis.“

Í nefndaráliti sjálfstæðismanna segir að möguleg áhrif almennrar viðurkenningar á sjálfstæði og fullveldi Palestínu á sjálfar friðarviðræðurnar milli Palestínumanna og Ísraelsmanna séu órannsökuð. Ætlaður ábati af viðurkenningu kunni allt eins að snúast. Ástæðan sé sá ágreiningur sem sé milli Fatah á Vesturbakkanum og Hamas á Gasa.

Nefndarálit sjálfstæðismanna

mbl.is

Bloggað um fréttina