250 km á næstu fæðingardeild

Engum fæðingardeildum utan Reykjavíkur hefur verið formlega lokað á síðasta áratug en fæðingum hefur hins vegar fækkað á ýmsum stöðum á sama tíma, að því er segir í svari sem var lagt fram á Alþingi í dag. Þá þurfa konur á Þórshöfn á Langanesi að fara lengst til að komast á fæðingardeild, um 250 km.

Í svarinu segir að engum fæðingardeildum hafi verið lokað formlega en fæðingum víða hafi fækkað en það tengist m.a. því að vaktir á skurðstofum hafa víða lagst af, t.a.m. í Reykjanesbæ, Selfossi og Sauðárkróki. „Örðugt hefur reynst og jafnvel ógerlegt að fá almenna skurðlækna til starfa á landsbyggðinni til að halda uppi slíkri þjónustu,“ segir í skriflegu svari Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra við fyrirspurn Sigmundar Ernis Rúnarssonar. Hægt er að lesa svarið í heild sinni hér. 

Lengst að fara frá Þórshöfn á fæðingardeild

Einnig kemur fram að konur á Þórshöfn á Langanesi eiga um lengstan veg að fara til að fæða börn á sjúkrahúsi en frá Þórshöfn eru um 250 km til Akureyrar og jafnlangt til Neskaupstaðar. 

Spurt var hversu víða engin fæðingardeild væri í klukkustundarakstursfjarlægð frá byggð  og kemur fram í svarinu að ef miðað sé við að klukkustundarakstursfjarlægð sé 75 km séu sjö byggðasvæði á landinu lengra frá fæðingardeild en sem því nemur, þ.e. Snæfellsnes, Dalasýsla, Barðastrandasýslur, Strandasýsla, Norðurþing, Vopnafjörður og Vestur-Skaftafellssýsla. 

Meðal þess sem kemur fram er að engar fæðingar eru skráðar, hvorki í heimahúsum eða á heilbrigðisstofnun, á Egilsstöðum frá 2002, engin á Húsavík frá 2007 og engin á Patreksfirði frá 2004. Fæðingum á Selfossi fækkaði úr 162 árið 2009 í 95 árið 2010 og í Reykjanesbæ fækkaði fæðingum úr 273 í 172, á sama tímabili.

mbl.is

Bloggað um fréttina