Hækkaði stjórnarlaun um 77%

Fjármálaeftirlitið flutti nýverið í nýtt húsnæði við Höfðatorg.
Fjármálaeftirlitið flutti nýverið í nýtt húsnæði við Höfðatorg. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Gylfi Magnússon, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, tók ákvörðun um að hækka þóknun til stjórnarmanna í Fjármálaeftirlitinu um 77%. Heildarlaun til stjórnar fara úr 13,5 milljónum í 24 milljónir.

Þetta kemur fram í greinargerð með frumvarpi sem efnahags- og viðskiptaráðherra lagði fram á Alþingi um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Upphaflega var áætlað að þóknun til þeirra sem sitja í stjórn FME næmi 13,5 milljónum á næsta ári, en ráðherra ákvað að hækka launin. „Ákvörðun ráðherra grundvallast á mati á tíðni og tímalengd funda, samanburði við þóknun stjórna eftirlitsskyldra aðila, þeim viðamiklu takmörkunum sem stjórnarmenn sæta til öflunar annarra tekna og hæfniskröfum sem þeir þurfa að uppfylla,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Þrír sitja í stjórn Fjármálaeftirlitsins, en þeir eru: Aðalsteinn Leifsson, lektor, formaður stjórnar, Ingibjörg Þorsteinsdóttir, dósent, varaformaður stjórnar og Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, tilnefndur af Seðlabanka Íslands.

Samkvæmt þessar hækkun nemur launakostnaður vegna hvers stjórnarmanns 8 milljónir króna. Taka skal fram að oft fær stjórnarformaður hærri laun fyrir stjórnarsetu en aðrir stjórnarmenn. Einnig skal tekið fram að varamenn fá laun fyrir þá fundi sem þeir sitja.

Athugsemd kl. 16:30

Vegna fréttarinnar hefur efnahags- og viðskiptaráðuneytið sent eftirfarandi athugasemd eftir að hafa leitað upplýsinga hjá Fjármálaeftirlitinu. Tekið skal fram að það var Gylfi Magnússon, fyrrverandi ráðherra, en ekki Árni Páll Árnason sem tók ákvörðun um hækkun stjórnarlauna. Ákvörðunin var tekin degi áður en Árni Páll tók við embætti efnahags- og viðskiptaráðherra.

„Varðandi frétt sem birt var á mbl.is í dag 2. desember um hækkun launa stjórnarmanna Fjármálaeftirlitsins skal tekið fram að laun stjórnarmanna voru hækkuð árið 2010, frá fyrsta apríl það ár.

Á þeim tíma var búið að loka rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir ársins 2011. Hækkunin kom því ekki fram fyrr en í áætlun vegna ársins 2012.

Af frétt mbl.is má skilja að þrír stjórnarmenn þiggi launin. Þetta er ekki rétt. Þrír varamenn sitja alla fundi stjórnar Fjármáleftirlitsins og fá greidda sömu upphæð og almennir stjórnarmenn. Upphæðin skiptist því á sex einstaklinga en ekki þrjá.

Að lokum skal tekið skal fram að núverandi stjórnarformaður og varaformaður tóku sæti í stjórn Fjármálaeftirlitsins hinn 1. júní á þessu ári, rúmu ári eftir að hækkunin tók gildi.“

mbl.is