Ekki taka lán fyrir jólunum

Neytendasamtökin hafa löngum gagnrýnd starfsemi smálánafyrirtækja.
Neytendasamtökin hafa löngum gagnrýnd starfsemi smálánafyrirtækja. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Neytendasamtökin gagnrýna á vefsvæði sínu jólaleik smálánafyrirtækis sem auglýstur hefur verið í fjölmiðlum að undanförnu. Samtökin vara fólk við að falla í freistni og taka lán fyrir jólunum.

Á vefsvæði samtakanna segir að það sé mikið ólán ef fólk þurfi á þjónustu slíkra fyrirtækja að halda og það veki því athygli hversu mikið kapp sé lagt á markaðssetningu og að hvaða markhópi hún beinist helst. Um sé að ræða neyslulán í stuttan tíma á ofurvöxtum, eða allt að 600% á árs grundvelli.

Jólaleikur Kredia, sem er smálánafyrirtæki, gengur út á að á hverjum degi fram að jólum er einn lántaki dreginn út og þarf hann ekki að greiða lán sitt til baka. „Neytendasamtökin telja í hæsta máta óeðlilegt að stundaðir séu „leikir“ sem ganga út á að fá fólk til að taka lán með von um að sleppa við endurgreiðslu,“ segir á vef samtakanna.

Samtökin segja að í auglýsingunni rökstyðji Kredia hvers vegna fólk ætti að láta það eftir sér að taka lán með því að segja að jólin séu bara einu sinni á ári. „Samtökin minna á að það er ekkert ókeypis. Vinningar, hvaða nöfnum sem þeir nefnast, eru á endanum greiddir af viðskiptavinunum sjálfum. Jafnvel þótt ekki sé tekin afstaða til þeirra okurvaxta sem þarna eru í boði er fólk varað við að falla í freistni og taka lán bara til að taka lán, hvorki á jólunum né aðra daga ársins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert