Greiddu 432 milljarða upp í Icesave

Slitastjórn gamla Landsbankans hefur greitt út fyrstu hlutagreiðslur til forgangskröfuhafa í slitameðferð Landsbanka Íslands. Greiðslurnar nema jafnvirði um 432 milljarða íslenskra króna, sem lætur nærri að vera um þriðjungur af samþykktum forgangskröfum.

Fram kemur á vef slitastjórnarinnar, að meðal þeirra sem fengu greiðslur voru kröfuhafar í þeim 9 innstæðumálum sem voru nýlega dæmd af Hæstarétti Íslands. Um var að ræða kröfur bresku og hollensku innstæðutryggingarsjóðanna vegna Icesave og breskra og hollenskra sveitarfélaga vegna heildsöluinnlána.

Jafnframt voru lagðar inn á sérstaka geymslureikninga fjárhæðir sem svöruðu samsvarandi hlutfalli allra jafnsettra krafna, sem enn eru umdeildar eða þar sem ekki hafði lokið úrlausn ágreinings.

Greiðslan fór fram í körfu helstu gjaldmiðla sem voru til reiðu, þ.e. í evrum, sterlingspundum, bandaríkjadölum og íslenskum krónum.

Fram kom í nóvember, að slitastjórnin áærlað að 1353 milljarðar króna endurheimtist upp í kröfur á búið en það er um 34 milljörðum króna  meira en sem nemur heildarfjárhæð bókfærðrar stöðu forgangskrafna. Sú upphæð er 1319 milljarðar kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert