Hyggjast rannsaka póstsendingu

Landspítali
Landspítali Þorvaldur Örn Kristmundsson

Framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala og Háskóli Íslands munu láta rannsaka það að tölvupóstur með boði um þátttöku í rannsókn var sendur út með þeim hætti að viðtakendur póstsins sáu netföng hver annars. Í sameiginlegri yfirlýsingu segir að mistökin séu alvarleg og beðist afsökunar á þeim.

Um var að ræða rannsókn á hugsanlegri reynslu einstaklinga af ofbeldi í nánum samböndum. Leyfi Vísindasiðanefndar lá fyrir um framkvæmd rannsóknarinnar og seinna fékkst viðbótarleyfi nefndarinnar til að senda spurningalista rannsóknarinnar á netfang það er skjólstæðingar viðkomandi göngudeilda gáfu upp.

Afleiðingar sendingarinnar urðu þær að sjá mátti netföng fólks sem leitað hafði á vissar göngudeildir Landspítala á ákveðnu tímabili. „Ekki var leitað til framkvæmdastjóra lækninga sem ber ábyrgð á vörslu sjúkraskráa spítalans varðandi viðbótarleyfi til þess að nota tölvupóst með þessum hætti. [...] Það voru alvarleg mistök hjá starfsmanni Háskóla Íslands sem ekki verða dregin til baka, því miður, en við viljum fyrir hönd Háskóla Íslands og Landspítala biðjast afsökunar á þessum mistökum.“ segir í yfirlýsingunni.

Einstaklingum sem líður illa vegna póstsins eða telja sig hafa orðið fyrir skaða vegna þessa máls er boðið að hafa samband við geðsvið Landspítala.

Netföng 158 einstaklinga

Í Morgunblaðinu í dag er greint frá því að 158 netföng fólks sem meðal annars hafði sótt þjónustu á bráðamóttöku eða göngudeild geðsviðs eða kvennadeildar Landspítalans voru send öllum á póstlistanum.

Rannsóknin mun hafa náð til nokkur hundruð einstaklinga og var hún send á alla þá sem höfðu sótt sér fyrrgreinda þjónustu á ákveðnu tímabili. Tilgangur var að kanna hvort fólk hefði orðið fyrir ofbeldi í nánum samböndum eða ekki.

Persónuvernd fékk inn á borð til sín formlegar kvartanir út af könnuninni,  en í flestum tilfellum er auðvelt að slá netföngum upp á netinu og fá heiti manneskjunnar sem netfangið tilheyrir.

mbl.is