Atvinnuleysi eykst

Félagar í VR mótmæltu atvinnuleysi með táknrænum aðgerðum í síðustu …
Félagar í VR mótmæltu atvinnuleysi með táknrænum aðgerðum í síðustu viku. mbl.is/Golli

Skráð atvinnuleysi í nóvember var 7,1%, en að meðaltali voru 11.348 atvinnulausir í nóvember. Í október var skráð atvinnuleysi 6,8% og fjölgaði atvinnulausum um 430 að meðaltali frá október eða um 0,3 prósentur að sögn Vinnumálastofnunar.

Stofnunin segir, að yfirleitt versni atvinnuástandið frá nóvember til desember, m.a. vegna árstíðasveiflu. Í desember 2010 var atvinnuleysi 8%, en 7,7 % í nóvember 2010. Vinnumálastofnun áætlar að atvinnuleysið í desember 2011 aukist lítils háttar og verði á bilinu 7,2 % ‐ 7,4%.

Körlum á atvinnuleysisskrá fjölgaði um 322 að meðaltali og konum um 108. Atvinnulausum fjölgaði um 168 á höfuðborgarsvæðinu en um 262 á landsbyggðinni. Atvinnuleysið var 7,9% á höfuðborgarsvæðinu en 5,7% á landsbyggðinni. Mest var það á Suðurnesjum 12,3%, en minnst á Norðurlandi vestra 2,6%. Atvinnuleysið var 6,9% meðal karla og 7,3% meðal kvenna.

Alls var 2021 erlendur ríkisborgari án atvinnu í lok nóvember, þar af 1.186 Pólverjar eða um 59% þeirra útlendinga sem voru á skrá í lok mánaðarins. Flestir atvinnulausra erlendra ríkisborgara voru starfandi í byggingariðnaði eða 405.

Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði er nú 6734 og fjölgar um 68 frá lokum október og eru um 55% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá í lok nóvember. Þeim sem verið  hafa atvinnulausir í meira en eitt ár fjölgar úr 4491 í lok október í 4549 í lok nóvember.

Skýrsla Vinnumálastofnunar um atvinnuleysi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert