Meta kvartanir ekki efnislega

Ingimar Ingason, framkvæmdastjóri Lögmannafélags Íslands.
Ingimar Ingason, framkvæmdastjóri Lögmannafélags Íslands. mbl.is

Stjórn Lögmannafélags Íslands metur aldrei efnislega hvort lögmenn hafi gerst brotlegir við lög eða siðareglur félagsins og hún hefur ekki málskotsrétt til úrskurðarnefndar. Þetta segir Ingimar Ingason, framkvæmdastjóri félagsins, en stjórn þess tók ekki efnislega afstöðu til ummæla Sveins Andra Sveinssonar, hæstaréttarlögmanns, sem kvartað var yfir til félagsins.

„Stjórn getur leitað álits úrskurðarnefndar ef um er að ræða ágreining um túlkun á inntaki siðareglna en hún getur ekki skotið málum þar inn til að kalla eftir efnismeðferð,“ segir Ingimar.

Það komi aldrei til efnislegrar umfjöllunar í stjórn Lögmannafélagsins hvort félagsmenn hafi gerst brotlegir við lög eða siðareglur. Þeir sem mál snerti geti vísað því til sjálfstæðrar úrskurðarnefndar eftir eðli hins meinta brots.

Þeir Agnar Kristján Þorsteinsson og Ísak Jónsson skrifuðu opið bréf til Lögmannafélagsins þar sem óskað var eftir svörum við því hvort Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður, hafi brotið siðareglur félagsins með ummælum sem hann lét falla á Facebook-síðu sinni um nauðgunarkæru ungrar stúlku á hendur Agli Einarssyni.

Birtu þeir svarbréf Lögmannafélagsins á bloggsíðu Agnars Kristjáns í gær. Svaraði stjórn félagsins því ekki efnislega og vísaði bréfriturum á úrskurðarnefndina. Segjast þeir Agnar Kristján og Ísak nú íhuga að vísa kvörtun sinni til nefndarinnar.

Íhuga kvörtun vegna ummæla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert