Varar við tóbaksvarnatillögu

Fjöldi umsagna hafa borist Alþingi vegna tóbaksvarnatillögunnar, þ.á.m. ein frá …
Fjöldi umsagna hafa borist Alþingi vegna tóbaksvarnatillögunnar, þ.á.m. ein frá fyrirtæki í Washington. mbl.is/Golli

Bandaríska fyrirtækið Buisness Civil Liberties í Washington-borg varar Alþingi alvarlega við að samþykkja þingsályktunartillögu um aðgerðaráætlun um tóbaksvarnir í umsögn sem barst velferðarnefnd þingsins í dag.

Velferðarnefnd er með þingsályktunartillöguna til umfjöllunar og óskaði ekki eftir umsögn frá þessu bandaríska fyrirtæki. Álfheiður Ingadóttir, formaður nefndarinnar og einn flutningsmanna tillögunnar, varð undrandi þegar hún fékk fréttir af þessari umsögn í gær. „Tóbaksframleiðendur eru gríðarlega sterkur hagsmunaaðili. Það er ekkert nýtt,“ segir Álfheiður. Hún kannast ekki við að þingnefndum hafi borist umsagnir af þessum toga áður.

Segir Ísland brjóta alþjóðlegar skuldbindingar

Það eru Siv Friðleifsdóttir og fimm aðrir þingmenn sem standa að þingsályktunartillögunni um að fela velferðarráðherra að vinna 10 ára aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir, þar sem einn liðurinn verði að sala á tóbaki verði takmörkuð við apótek.

Í umsögn Buisness Civil Liberties segir að það vinni að almannahagsmunum bæði innan Bandaríkjanna og á alþjóðavísu. Gerir það fyrst og fremst alvarlegar athugasemdir við tillögu um að settar verði reglur um að tóbaksumbúðir verði einsleitar og ekki aðlaðandi í útliti. Þetta brjóti í bága við ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar um persónufrelsi, segir í umsögn Buisness Civil Liberties.

Því til viðbótar myndi samþykkt þessarar tillögu vera brot á alþjóðlegum skuldbindingum sem Íslendingar hafi undirgengist. Þá hafi engar trúverðugar sönnur verið færðar á að viðvaranir á tóbaksumbúðum verði til þess að draga úr reykingum. 

Álfheiður segir að þegar tillagan var fyrst lögð fram hafi hún vakið gríðarlega mikla athygli út fyrir landssteinana. „Það komu fjölmargar fyrirspurnir frá erlendum fréttamönnum og öðrum og kallað var eftir því að tillagan yrði þýdd. Aðgerðir Íslendinga í tóbaksvörnum eru nokkuð miklar og þær hafa skilað verulegum árangri þannig að eftir er tekið. Ég man eftir að hafa fengið fyrirspurnir frá Nýja Sjálandi og Ástralíu um þá ákvörðun að fela tóbak í búðum.

Það er margt sem hefur vakið athygli erlendis, og greinilega ekki bara þeirra sem vilja verja fólk fyrir tóbaksreyk, heldur líka þeirra sem vilja halda tóbakinu að, eins og þetta er dæmi um,“ segir hún.

Álfheiður Ingadóttir.
Álfheiður Ingadóttir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert