CBC Radio: Forsetinn bjargaði Íslandi

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, í opinberri heimsókn til Kanada …
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, í opinberri heimsókn til Kanada um síðustu aldamót. Árni Sæberg

Þegar öll sund virtust lokuð kom forsetinn til skjalanna og gerði íslensku þjóðinni kleift að kjósa um Icesave-samkomulagið. Á þessum nótum hefst ítarlegt fréttaviðtal kanadísku sjónvarpsstöðvarinnar CBC Radio við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands. Lýsir forsetinn þar meðal annars því yfir að erlend fjárfesting sé jafnvel of mikil á Íslandi. 

Lýsingar kanadíska blaðamannsins, Michael Enright, þjóðþekkts blaðamanns í Kanada, á þætti forsetans eru hástemmdar.

En í inngangi viðtalsins er íslenski þjóðsöngurinn leikinn og kynnir kanadísk útvarpskona framhaldið á íslensku, með orðunum „Og núna er komið að Íslandshorninu í Sunday Edition“.

Bauð efnahagslegum rétttrúnaði byrginn

Orðrétt segir í kynningunni líkt og lesa má um hér.

„Í efnahagshruninu 2008 fór Ísland nærri því á hliðina. Þrír bankar landsins féllu, gengi gjaldmiðilsins hrundi um 50% og í fordæmalausri birtingarmynd reiðinnar þustu Íslendingar, sem öllu jöfnu eru friðsældarfólk, út á göturnar og mótmæltu.

En Ísland bauð hinum efnahagslega rétttrúnaði samtíðarinnar byrginn - þ.e. trúnni á björgunarpakka og niðurskurð í opinberum útgjöldum - og er nú á braut endurreisnar sem er öfundarefni um alla Evrópu.

Hetja augnabliksins og maðurinn sem er nær einn síns liðs á bak við þessi eftirtektarverðu umskipti er forseti landsins, Ólafur Ragnar Grímsson,“ segir blaðamaðurinn og rekur hvernig forsetinn hafi rutt brautina fyrir efnahagslegri endurreisn með því að leyfa almenningi að taka þátt í ákvörðunum.

Skýtur föstum skotum á Bandaríkjastjórn 

Farið var yfir víðan völl í viðtalinu og gagnrýndi Ólafur Ragnar meðal annars Bandaríkjastjórn fyrir að hreyfa hvorki legg né lið þegar Ísland einangraðist í Icesave-deilunni. Setur forsetinn þá einangrun í samhengi við þá áherslu sem lögð hefur verið á að rækta tengslin við fjarlægari ríki, að Kína meðtöldu, en það kann aftur að setja ummæli hans í Grímsstaðadeilunni í nýtt samhengi.

Blaðamaðurinn spyr forsetann hvort erlend fjárfesting á Íslandi sé nægjanleg til að rétta af efnahagslífið frekar og svarar Ólafur Ragnar þá því til að hún sé þvert á móti „jafnvel of mikil“, líkt og rakið er undir lok þessarar endursagnar.

Rekur forsetinn hvernig fjármálahrunið virtist ætla að ganga gegn hinni miklu félagslegu samheldni sem einkennt hafi íslenskt samfélag í aldir.

Friðsamir mótmælendur tóku í taumana

Hann rifjar upp mótmælin í janúar 2009 og þá miklu óvissu sem þá var uppi í íslensku samfélagi.

„Það sem ég óttaðist þegar ég vaknaði á hverjum morgni var ekki að okkur tækist ekki að takast á við hinar efnahagslegu afleiðingar heldur að það sem væri að gerast ... myndi kljúfa [þjóðina] í sundur þannig að okkur tækist ekki að setja hana saman aftur.“

Forsetinn rifjar svo upp þegar hluti friðsamra mótmælenda tók í taumana þegar óeirðaseggir tóku að grýta lögreglumenn fyrir utan Stjórnarráðið. Grjótkastinu hafi linnt vegna inngrips friðarsinna.

„Mörg okkar trúa því að ef þessir einstaklingar, 10, 15, 20 talsins, hefðu á þessu augnabliki ekki ákveðið að nóg væri komið hefði enginn getað spáð fyrir um hvernig nóttin hefði þróast,“ segir Ólafur Ragnar.

Vék forsetinn því næst að félagslegri ábyrgð bankanna og þeirri trú á síðustu áratugum að gera ætti markaðnum hærra undir höfði en öðrum þjóðfélagsþáttum. Efnahagskreppan nú snúist ekki aðeins um fjármál heldur einnig lýðræðið og stjórnmálin. Áskorunin í stjórnmálum og á vettvangi lýðræðisins sé engu minni.

Hann nefndi síðan dæmi frá Íslandi um hvernig Alþingi hefði skipað rannsóknarskýrslu um aðdraganda og orsakir bankahrunsins og ákveðið kosningar til stjórnlagaþings.

Gagnrýnir matsfyrirtækin

Blaðamaðurinn spyr út í þau varnaðarorð matsfyrirtækja að lánshæfismat Íslands myndi hríðlækka ef Ísland tækist ekki á hendur skuldir erlendra kröfuhafa eftir fjármálahrunið.

Svarar forsetinn þá því til að helstu matsfyrirtækin, Moody's, Fitch og Standard & Poor's þurfi að svara fyrir það hvers vegna þau gáfu íslenska bankakerfinu bestu meðmæli nokkrum misserum fyrir hrunið.

Þá rifjar forsetinn upp að ýmsir hafi varað við því að eldi og brennistein myndi rigna yfir þjóðina ef ekki yrði gengið að erlendum kröfum, meðal annars með vísan til þess að Ísland yrði „Kúba norðursins“.

Íslendingar munu ekki gleyma Brown

Talið barst að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands 2007 til 2010, og þeirri ákvörðun hans að beita íslensk fyrirtæki hryðjuverkalögum.

Sagði forsetinn þá að Íslendingar væru langminnugir og myndu muna eftir Brown þegar hann væri orðinn gleymdur í Bretlandi. 

Lýðræðið markaðsöflunum yfirsterkara

Eins og áður var nefnt bar Icesave-deilan á góma.

Sagðist forsetinn þá hafa ákveðið að lýðræðið væri markaðsöflunum yfirsterkara. Hann hefði því kosið að leggja deiluna í dóm þjóðarinnar.

„Ef við byrjum að segja að markaðsöflin séu mikilvægari en lýðræðið erum við að minni hyggju að hefja mjög áhættusama vegferð.“

Kína kemur til sögunnar

Talið barst því næst að Kína.

Sagði forsetinn þá að öll ríki Evrópusambandsins hefðu sameinast að baki kröfum Breta og Hollendinga í Icesave-deilunni. Skuldabyrðin sem þá hafi verið rædd hefði næstum jafngilt neyðarsjóði ESB í skuldakreppunni ef yfirfærð hefði verið í breskt samhengi.

Undantekningin hefði verið Færeyjar og Pólland sem ekki hefðu tekið þátt í að beygja Íslendinga í deilunni.

Hann víkur að Bandaríkjastjórn og hvernig Íslendingar hefðu áttað sig á að henni „stæði á sama“ þegar Icesave-deilan bar á góma.

„Hvert gátum við leitað?“ spyr forsetinn og rekur hvernig hann hafi á sínum tíma, í félagi við bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands, tekið upp viðræður við Kínastjórn. „Það sem eftir fylgdi var einstaklega fáguð samræða við kínverska forystumenn ... sem loks leiddi til samnings á milli Seðlabanka Íslands og Kína.“

Kína hafði sýnt fram á mikla fágun og velvilja í þessum samskiptum þegar grannþjóðir Íslands sýndu „ýmist fálæti eða mikinn fjandskap [e. strong hostility]“.

Jafnvel of mikil erlend fjárfesting á Íslandi

Blaðamaðurinn spyr í framhaldinu hvernig erlendri fjárfestingu sé háttað á Íslandi um þessar mundir og hvort hún mætti ekki vera meiri.

„Þú gætir jafnvel sagt að vandamál okkar hafi verið að það hafi verið of mikill áhugi á að fjárfesta á Íslandi,“ svaraði forsetinn þá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert