Aðför að starfsfólki tryggingafélaga


Sá fjársýsluskattur (5,45%) sem efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur lagt til að lagður verði á allar launagreiðslur fjármálafyrirtækja, er hrein og bein aðför að starfsfólki tryggingafélaga á Íslandi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem formaður VR og forstjórar tryggingafélaganna Sjóvár, TM, VÍS og Varðar hafa sent frá sér.

„Rekstrarkostnaður tryggingafélaga byggir að mjög stórum hluta á launakostnaði og þegar álögur í þeim efnum hækka jafn mikið og nú er lagt á ráðin um, getur það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir starfsfólk fyrirtækjanna. Það er eindæmi að stjórnvöld á Íslandi leggi auknar álögur á eina starfsstétt umfram aðra með þessum hætti og setji starfsöryggi hennar um leið í algjört uppnám.

Undirrituð hvetja Alþingi Íslendinga til þess að endurskoða þær fyrirætlanir sem felast í þessum skatti og tryggja að við tekjuöflun ríkissjóðs sé jafnræðis gætt milli borgaranna og ekki vegið með harkalegum hætti að tilteknum hópum fólks í landinu. Allar aðgerðir hins opinbera í dag hljóta að miða að fjölgun starfa en ekki fækkun líkt og þessar álögur munu að öllum líkindum hafa í för með sér.

Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár
Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS
Sigurður Viðarsson, forstjóri TM
Stefán Einar Stefánsson, formaður VR.“

mbl.is

Bloggað um fréttina