Huang fundar um fjárfestingar á Íslandi

Huang Nubo.
Huang Nubo. mbl.is/Ernir

Fulltrúar fyrirtækisins Zhongkun, sem er í eigu kínverska fjárfestisins Huangs Nubos, áttu í dag fund í iðnaðarráðuneytinu þar sem rætt var um leiðir til að koma á nýju samkomulagi um fjárfestingar á Íslandi. Financial Times greinir frá þessu.

Iðnaðarráðuneytið vísar þessu hins vegar á bug.

„Við leitum leiða til að halda þessu áfram,“ sagði Huang í samtali við blaðið. Hann kveðst vera nokkuð bjartsýnn.

Sem kunnugt er hafnaði innanríkisráðherra beiðni um undanþágu vegna kaupa Huangs á Grímsstöðum á Fjöllum í síðasta mánuði.

Viðræðurnar nú snúast um að endurskilgreina fjárfestingar Zhongkuns þannig að það muni koma í hlut annars ráðuneytis en innanríkisráðuneytisins að leggja blessun sína yfir þær. Segir á vef FT að þannig verði hægt að komast fram hjá Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra, en FT hefur þetta eftir aðila sem þekkir til málsins.

Huang segir að ákvörðun innanríkisráðherra hafi haft mikil áhrif á Íslandi, m.a. á aðra stjórnmálaflokka. „Aðrir vilja enn sjá fjárfestingar Zhongkun,“ segir Huang og bætir við að iðnaðarráðuneytið hafi nýlega haft samband við sig til að ræða málið.

Hann segir ennfremur að önnur ríki í Norður-Evrópu hafi sýnt sér áhuga, m.a. Danmörk og Finnland. Ríkin vilji laða til sín fjárfesta. Huang íhugar m.a. að setja á laggirnar samtök kínverskra fyrirtækja til að skoða fjárfestingar á þessum slóðum.

Þá segir hann að viðbrögðin í Kína við ákvörðun innanríkisráðherra hafi verið sterk. Fólki finnist erlend ríki vera óvinveitt fjárfestingum Kínverja. Það sé nokkuð sem hann vliji ekki sjá.

Haft er eftir Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra í grein FT að í kjölfar hrunsins séu fjárfestingar nauðsynlegar til að efla hagvöxt á Íslandi. Í nokkur ár hafi erlendar fjárfestingar á Íslandi verið af skornum skammti. Þá hafi menn gagnrýnt regluverkið í kringum fjárfestingar hér á landi. Segi að það sé bæði flókið og óaðgengilegt.

FT segir að Katrín muni mögulega gera Huang kleift að fjárfesta hér á landi, þannig að lokaákvörðunin verði í höndum iðnaðarráðuneytisins en ekki innanríkisráðuneytisins. Hins vegar er tekið fram að Ögmundur sé ekki búinn að segja sitt síðasta hvað varðar þetta mál. Margir séu á sömu skoðun og hann á Íslandi og hafi efasemdir um tilgang og markmið fjárfestinga Huangs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert