Ekki fleiri brottfluttir í 100 ár

Samtals hafa rúmlega 9.000 fleiri Íslendingar flutt frá landinu en …
Samtals hafa rúmlega 9.000 fleiri Íslendingar flutt frá landinu en til þess á þessum frá árinu 2001 eða um 3% af þjóðinni, segir Ágúst. mbl.is/Golli

Tvö prósent af íbúum landsins með íslenskt ríkisfang hefur flutt af landi brott umfram aðflutta á fjögurra ára tímabili, eða frá 2008-2011. Samtals um 6.300 manns, að því er fram kemur í samantekt Ágústs Einarssonar, prófessors við Háskólann á Bifröst.

Hann tekur fram að tölur fyrir þrjá síðustu mánuði ársins séu áætlaðar.

„Þetta er langmesti fjöldi Íslendinga sem hefur flutt af landi brott á 4 árum í sögu landsins og fara þarf 100 ár til baka til að finna hærra hlutfall brottfluttra umfram aðflutta af íbúum landsins,“ segir Ágúst. Ljóst sé að bankahrunið hafi haft miklar afleiðingar.

Hann segir að gera megi ráð fyrir að um helmingur af þessu fólki sé á vinnumarkaði og atvinnuleysi sem sé nú um 7% væri líklega um 9% ef þessi brottflutningur hefði ekki orðið. Hugsanlega sé fjöldinn meiri því ekki hafi allir brottfluttir skráð sig.

Núverandi staða einsdæmi

„Frá 2001 í rúman einn áratug til og með árinu 2011 hafa á hverju ári fleiri Íslendingar flutt frá landinu en til landsins nema árið 2005. Samtals hafa rúmlega 9.000 fleiri Íslendingar flutt frá landinu en til þess á þessum 11 árum eða um 3% af þjóðinni. Ein skýring þessa er að fjölmargir fóru að vinna hjá íslenskum fyrirtækjum erlendis á þessum tíma. Núverandi staða er að mörgu leyti einsdæmi í sögu landsins,“ segir Ágúst.

Hann bendir á að á fjögurra ára ára tímabili, á árunum 1873 til og með árinu 1876, hafi brottfluttir umfram aðflutta verið 2,7% af íbúum landsins. Nokkrum árum seinna eða frá 1872 til 1889 hafi þetta hlutfall verið 6,1% og það séu mestu búferlaflutningar í sögu landsins sem hlutfall af íbúum á 4 árum. Þetta hafi verið 4.400 manns en þá bjuggu hér einungis um 70.000 manns.

10 þúsund yfirgáfu landið 1872 - 1894

„Á tímabili Vesturfaranna á 23 árum, 1872 til 1894, fluttust 14,8% af íbúum til útlanda umfram þá sem fluttu til landsins eða rúmlega 10 þúsund manns,“ segir Ágúst.

Þá bendir hann á að á 20. öldinni séu nokkrar kreppur þar sem fólk flytji til útlanda.

„Á fyrstu árum aldarinnar á árunum 1900 til 1903 flytjast 2,5% af íbúum umfram aðflutta til útlanda. Í næstu kreppum er þetta hlutfall frá 0,9% upp í 1,8% á 4 ára tímabilum, t.d. 1,5% í kreppunni 1968 þegar síldin hrundi og mikið verðfall varð á fiskafurðum í Bandaríkjunum en á þeim 4 árum voru brottfluttir Íslendingar umfram aðflutta 3.000 manns,“ segir í samtekt Ágústs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert