Dæmdur fyrir stórfellda líkamsárás

mbl.is/Ásdís

Hæstiréttur hefur dæmt Gest Hrafnkel Kristmundsson í þriggja ára fangelsi fyrir frelsissviptingu, stórfellda líkamsárás, ólögmæta nauðung og tilraun til fjárkúgunar. Gestur framdi afbrotin ásamt Eyþóri Helga Guðmundssyni.

Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi Gest, sem er 52 ára gamall í 20 mánaða fangelsi í mars sl. og var Eyþór Helgi, sem er 26 ára, dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi.

Hæstiréttur hefur því þyngt dóminn yfir Gesti. Auk þess er honum gert að greiða fórnarlambi sínu hærri miska- og skaðabætur en í héraði, eða rúmar 1,5 milljónir kr.

Ríkissaksóknari gaf út ákæru þann 26. júlí 2010 á hendur Gesti og Eyþóri í héraði fyrir frelsissviptingu, stórfellda líkamsárás, ólögmæta nauðung og tilraun til fjárkúgunar.

Málið snýst um ofbeldisverk sem voru framin í íbúð á Akureyri. Þar var maður sviptur frelsi og honum haldið nauðugum frá um klukkan 21 að kvöldi sunnudagsins 9. ágúst 2009 til um klukkan 9 að morgni næsta dags. Á meðan frelsissviptingunni stóð var maðurinn beittur líkamlegu ofbeldi. Þá var honum og hans nánustu ítrekað hótað líkamsmeiðingum og lífláti greiddi hann ekki árásarmönnunum allt að einni milljón króna.

Sparkað var í manninn þar sem hann lá á dýnu á gólfinu. Hann var ítrekað sleginn í höfuð og líkama með krepptum hnefa og stappað á líkama hans. Þá var ítrekað lagst á hann og honum hótað lífláti. Þeir Gestur og Eyþór hótuðu jafnframt að drepa og nauðga systur mannsins og nauðga móður hans.

Þá neyddu þeir manninn til að þrífa húsnæðið, meðal annars að vaska upp og þrífa baðherbergi og neyddi Gestur  fórnarlambið til að sleikja salernisskál.

Maðurinn sem varð fyrir árásinni hlaut miklar bólgur yfir vinstra auga og náði vart að opna það. Hann var með ,,hrufl-skurðsár“ um neðanverðan háls og bólgur á eyrum. Þá var brotaþoli mikið marinn yfir hægri hnéskel. Yfir sköflungi hægra megin sem og ökkla var hann með sár, mikið mar og roða. Var hann hvellaumur við snertingu frá hægra hné og niður fyrir ökkla.

Þá segir í dómi Hæstaréttar að maðurinn hafi mátt þola mikið þann tíma sem honum var haldið.

Einnig segir að maðurinn hafi áfallastreitu- og félagskvíðaeinkenni sem verulega hái honum í daglegu lífi. Einnig segir að hann sé óvinnufær og lítt virkur vegna þeirra einkenna, en áfallastreitan tengist líkamsárásinni.

mbl.is