Glerhálka veldur vanda um allt land

Við Þelamörk í Hörgárbyggð.
Við Þelamörk í Hörgárbyggð. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Geysileg hálka hefur verið til vandræða um nánast allt landið að undanförnu. Tveir vörubílstjórar sem aka mikið um þjóðvegi norðanlands eru óánægðir og segja mikinn mun á snjómokstri og hálkuvörnum milli svæða. Slysahættan sé augljós.

Starfsmaður Eimskips-Flytjanda, Már Þorvarðarson, gagnrýnir hálkuvarnir frá Reykjavík um Suðurland til Austfjarða. „Þetta er bara alveg skelfilegt ástand þarna,“ segir hann. Beita þurfi öflugri tækjum gegn klakanum. Hann bendir einnig á að bílarnir séu um 5-6 tímum lengur á leiðinni en venjulega og á leiðinni frá Reykjavík til Austurlands þurfi nú að aka 350-400 km á keðjum.

Jónas Erlendsson, fréttaritari Morgunblaðsins á Suðurlandi, sagði ástandið slæmt. Byrja þyrfti ruðninginn fyrr á morgnana, áður en umferð byrjaði að ráði. „Bílstjóri í Vík, sem sér um mokstur og hálkuvarnir, byrjar morgnana á því að fara út undir Steina undir Eyjafjöllum til að ryðja,“ segir Jónas. En á meðan sé umferð á þjóðveginum austur að Álftaveri. Snjórinn nái að troðast og því ekki hægt að ná að skafa almennilega þótt bíllinn sé búinn tönnum.

Björn Ólafsson, forstöðumaður hjá Vegagerðinni, segir að farið sé eftir samræmdum reglum um allt land. Hann segist skilja vel óánægju vörubílstjóranna en ekki sé nema lítið brot af mörg þúsund km löngu vegakerfinu hálkuvarið.

„Við gerum eins vel og við mögulega getum. En það er búið að skera mikið niður og ekki til peningar til þess að hálkuverja allt kerfið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert