Jata var fyrsta athvarf frelsarans

Jata var fyrsta athvarf frelsarans. Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands segir þetta minni okkur á það að hann var hælislaus í heiminum okkar. „Úthýst úr mannabústöðum þessa heims. Slík eru einatt lífsskilyrði trúar, vonar og kærleika í heiminum okkar.“

Karl birtir pistil á vefnum tru.is þar sem hann gerir jötuna þar sem Jesús fæddist að umfjöllunarefni.

„Þegar fest er kaup á rúmi verður ljóst að rúm er ekki aðeins rúm, allt í einu stendur maður frammi fyrir alls konar útlenskum orðum og skilgreiningum, Queen Size, King Size, og svo merkilegt orð: “Sleeping System!” – svefn-kerfi. Þá versnaði nú í því.

Svo barst mér nú fyrir jólin þessi mynd af fyrsta hæli frelsarans á jörðu, konungs konunganna og drottins drottnanna. Honum var búið rúm í jötu og þar með er til kominn nýr mælikvarði og viðmið í veröldinni, sem kaldhæðnisleg yfirskrift myndarinnar minnir á.

Jata var fyrsta athvarf frelsarans, konungs lífs vors og ljóss. Það minnir okkur á það að hann var hælislaus í heiminum okkar, úthýst úr mannabústöðum þessa heims. Slík eru einatt lífsskilyrði trúar, vonar og kærleika í heiminum okkar.

Jólaguðspjallið er sagan um Guð, hinn æðsta mátt, og um manninn, mig og þig og alla menn öll börn allra alda um allan heim. Hún segir að Guðs son fæðist inn í þennan heim sem heimilislaust barn svo öll jarðarbörn geti eignast heimili og athvarf í heiminum. Mannssálin ber ávallt og alls staðar með sér þá tilfinningu að vera með einhverjum hætti að heiman, í útlegð þótt erfitt sé að gera sér grein fyrir því hvað það er sem við þráum, okkur er vant, á skortir til að fá frið og fullnægju. Þess vegna kom Jesús til að sýna okkur hvar við erum stödd og hvar leiðina heim er að finna, já, ekki bara sýna okkur heldur fylgja okkur þangað.

Við lifum flest við öryggi og hlýju heimilis og fjölskyldu. Þó vitum við að margir fara á mis við það. Fjöldi fólks mun njóta gestrisni Hjálpræðishersins á aðfangadagskvöld þar sem gott fólk gefur heimilislausum að njóta heimilishlýju og jólagleði. Jólin vekja slíkt til lífs í hugum flestra, þó ekki sé nema skamma hríð. En í þeirri svipan lýkst upp mynd af því hvað gott líf og gott samfélag er og á að vera - líf og samfélag sem er borið uppi af góðvild og örlæti, hógværð og hófsemi, gestrisni og kærleika.

Guð, hinn æðsti máttur, kom sem heimilislaust barn svo við gætum séð og fundið markmið hans og forgangsröðun, konungsríki hans.

Þú átt ef til vill erfitt með að trúa því sem kristnin staðhæfir um barnið í jötunni. En mér þykir líklegra en ekki að þú, meðvitað eða ekki, sért undir áhrifum af þeirri guðsmynd og mannsskilningi og samfélagssýn sem Jesús Kristur færði mannkyni. Með komu hans urðu afgerandi vatnaskil í veraldarsögunni sem er fullkomlega gild ástæða til þess að hugsa sig um tvisvar áður en staðhæfingum trúarinnar er hafnað. Með honum sem fæddist í Betlehem kom nýtt viðmið og mælikvarði inn í þennan heim.

Það sem skilgreinir manninn er ekki það sem hann eða hún á eða gerir. Hin sanna mynd mannsins er ekki konungur eða keisari, ofurhetja eða auðjöfur heldur barn, allslaust og varnalaust barn. Maðurinn ber með sér hvar sem hann fer, mynd Guðs, hversu mjög sem hún hefur verið svívirt og saurguð, eða hulin af heimsins glysi. Við erum öll sköpuð í Guðs mynd segir Biblían. Jesús kom til að minna okkur á það. Við erum í mynd Guðs af því að við erum fær um að elska og líkna og fyrirgefa. Og sönn mennska, heilt og satt mannlegt samfélag er það sem getir allt sem í þess valdi stendur til að vernda hið varnalausa eins og þau María og Jósef gerðu fyrir Jesú litla. Þau brugðust við eins og hlýtt og heilbrigt móðurhjarta og föður býður þeim. Því miður eru ekki allir foreldrar þannig, því miður eru ekki öll þjóðfélög með þeim hætti. Jafnvel okkar þjóð virðist eiga talsvert ólært.

Og hvernig er Guð? Hvernig er hinn æðsti máttur? Kristin trú svarar því: Eins og Jesús Kristur, sem „var í jötu lagður lágt.“ Í hverju barni sjáum við hans mynd, í varnalausu barni sem kallar á og laðar fram viðbrögð góðvildar, tryggðar og umhyggju. Og trúin á hann er þátttaka í konungsríki hans, að staðsetja sig á valdsviði hans, áhrifasviði hans. Og það er ekkert “svefnkerfi,” svæfill né hægindi, heldur ábyrgð og réttur, tign og virðing og auður sem ekkert fær eytt né fellt, vilji konungsins, Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.
Og þegar við mætum afstöðu og viðhorfum góðvildar, umhyggju og óeigingirni, fórnfýsi og kærleika þá vitum við að við erum komin heim. Og þegar við bregðumst við sjálf eins og þau María og Jósef þannig að kærleikur, tryggð og umhyggja ráða för, þá vitum við að við getum búið því góða rúm í hjörtum okkar, híbýlum og heimi.

Veri það okkar jólagjöf, jólaósk og jólabæn sjálfum okkur og heimi öllum til handa.“

mbl.is