Baksvið: Enn er takmörkun í gildi hjá Hringrás

Eldsvoði hjá Hringrás í Klettagörðum
Eldsvoði hjá Hringrás í Klettagörðum mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Dekkjabruninn á athafnasvæði endurvinnslufyrirtækisins Hringrásar við Klettagarða í sumar dregur dilk á eftir sér því heilbrigðisnefnd Reykjavíkurborgar, Hringrás og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins takast enn á um takmarkanir á starfsemi á svæðinu en enn er í gildi samþykkt nefndarinnar um að magn gúmmís á svæðinu fari ekki yfir þrjú hundruð rúmmetra á hverjum tíma.

Tilkynnt var um eldinn rétt fyrir klukkan þrjú aðfaranótt þriðjudagsins 12. júlí sl. og voru þegar gerðar áætlanir um hugsanlega rýmingu íbúða í nágrenninu en ekki kom til þess vegna hagstæðra aðstæðna. Slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins sagði að magnið af efni sem logaði í hefði verið yfirþyrmandi og lagði SHS til að heildarmagn af óunnum og tættum hjólbörðum og öðru gúmmíi færi ekki yfir 300 rúmmetra á hverjum tíma, að stöflunarhæð óunninna og tættra hjólbarða og annars gúmmís færi ekki yfir þrjá metra auk þess sem öll vinnsla og geymsla hjólbarða og annars gúmmís færi fram í þeirri þró sem til þess er ætluð.

Auk þess var lagt til að gerð yrði áhættugreining á starfseminni og að takmörkun á starfseminni yrði ekki aflétt fyrr en henni væri lokið.

Dregur úr hagkvæmni

Samkvæmt starfsleyfi er leyfilegt að hafa allt að þúsund rúmmetra af efni á svæðinu. Í bréfi sem framkvæmdastjóri Hringrásar sendi heilbrigðisnefnd segir að takmörkun á því magni dragi mjög úr hagkvæmni vinnslunnar. Einnig að það sé óraunhæft markmið miðað við vinnslu og innflæði að takmarka starfsleyfi við aðeins þrjú hundruð rúmmetra. „Það sem við viljum fara fram á er að stjórnsýslan gæti meðalhófs við afgreiðslu málsins og tryggi að rekstrargrundvellinum sé ekki kippt undan endurvinnslu dekkjanna,“ segir í bréfinu og er lagt til að svæðinu verði frekar skipt í þrjú þrjú hundruð rúmmetra hólf.

Auk þess benti framkvæmdastjórinn á og ítrekaði í öðru bréfi að bruninn hefði orðið af völdum íkveikju.

Í svarbréfi heilbrigðisnefndar sem lagt var fram til kynningar á síðasta fundi nefndarinnar kemur fram að í reglubundnu heilbrigðiseftirliti sem fram fór í síðasta mánuði hafi komið í ljós að birgðir af gúmmíi hafi verið með minnsta móti, vinnsla gúmmís virkað vel og ástand svæðisins betra en verið hefði varðandi umgengni og birgðasöfnun. Í ljósi þess óskar nefndin eftir svörum um það hvort og í hvaða tilvikum nauðsynlegt er að hafa meiri birgðir á svæðinu.

Einnig er komið inn á þá fullyrðingu forsvarsmanna fyrirtækisins að um íkveikju hafi verið að ræða. Segir að nefndin hafi sjálf óskað eftir því við lögreglustjóra með bréfi sendu í ágúst sl., að hann upplýsti um orsakir brunans. Þrátt fyrir ítrekanir hafi svar ekki borist. Fer nefndin því fram á að fá afrit af staðfestingu lögreglustjóra til fyrirtækisins.

„Þetta atriði skiptir máli varðandi kröfur til fyrirtækisins því ljóst er að ef um er að ræða íkveikju af mannavöldum eins og fyrirtækið fullyrðir að hafi verið, er þörf á frekari úrbótum í öryggismálum á svæðinu.“

Heilbrigðisnefndin segir þá að meðalhófs hafi verið gætt en gera þurfi áhættumat, fá skýringar á orsökum brunans og ákvarða í kjölfarið hámarksmagn gúmmís. „[Það er] staðreynd að fyrirtækið er staðsett í næsta nágrenni við íbúðarbyggð með starfsemi sína og núgildandi starfsleyfi leyfir meira magn gúmmís en SHS treystir sér til að slökkva í við óbreyttar aðstæður.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert