Getum ekki sætt okkur við atvinnuleysið

Sigurður Bessason, formaður Eflingar og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Sigurður Bessason, formaður Eflingar og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Við getum ekki og eigum ekki að sætta okkur við þetta atvinnuleysi,“ segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar. Hann segir að fjárhagur margra fjölskyldna sé í úlfakreppu.

Þetta segir Sigurður í viðtali við Fréttablað félagsins. Hann segir að atvinnuleysið taki ekki bara frá okkur möguleikann til að lifa mannsæmandi lífi.  „Það eyðileggur sjálfsmynd okkar og trú á framtíðina. Nú erum við að sjá fjórða ár í kreppu og á þriðja þúsund félagsmanna í Eflingu eru atvinnulausir og þar af eru langtímaatvinnulausir stækkandi hópur. Við sjáum ýmis merki þess að fjárhagur margra fjölskyldna sé í úlfakreppu, því mjög hafi þrengt að á síðustu misserum. Í nýrri viðhorfskönnun fjölgar þeim sem draga við sig í útgjöldum s.s. í ferðalögum, fatnaði og tómstundum. Alvarlegast er að fjöldi fólks dregur við sig í matarinnkaupum, lyfjakostnaði og heilbrigðisþjónustu.“

 „Ég hef miklar áhyggjur af því að samfélag okkar sé að breytast og fólk fari að sætta sig við atvinnuleysið sem hluta af lífinu. Það má ekki gerast og nú verða stjórnvöld og fyrirtækin að snúa af þessari braut.“

mbl.is

Bloggað um fréttina