Þíða á gamlársdag

Snjór verður áfram í höfuðborginni
Snjór verður áfram í höfuðborginni mbl.is/Golli

 „Snjórinn hefur kannski ekki verið mjög mikill en hann hefur verið með allra þrálátasta móti,“ segir Trausti Jónsson veðurfræðingur og vísar til þeirrar veðráttu sem ríkt hefur á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu. Segir hann þó ekki útilokað að nýtt snjóhulumet verði sett fyrir höfuðborgarsvæðið í desembermánuði sem nú er að líða en jörð hefur verið alhvít 25 daga af 27.

Norðan meginskila

Að sögn Trausta hefur hiti á höfuðborgarsvæðinu verið undir meðallagi í desembermánuði en slíkt mun einnig eiga við um hita á Akureyri.

„Hitinn er svona rúmum tveimur stigum undir meðallagi í höfuðborginni og svipað er að segja annars staðar á landinu. Akureyri er tveimur og hálfu stigi undir,“ segir Trausti og bendir á að þrátt fyrir að um sé að ræða talsvert vik frá meðaltali séu mörg dæmi um svipað áður. Í því samhengi nefnir hann t.a.m. að tölur frá árinu 1981 séu á svipuðu róli og í ár. Ástæða fyrir kuldatíðinni er að sögn Trausta fremur margþætt. „Við höfum verið norðan við það sem við köllum meginskilin, þau hafa lítt snert okkur í þessum mánuði,“ segir Trausti og bendir á að aðfangadagur sé þar undanskilinn en þá gekk djúp lægð yfir landið.

Ekki er von á miklum umhleypingum í veðri á næstunni en gert er ráð fyrir áframhaldandi snjókomu á höfuðborgarsvæðinu. Þó er vert að geta þess að líkur eru taldar á spilliblota á gamlársdag.

„Það sem er allra verst við þetta núna er þessi hálka en það fer að hlána eitthvað og bleyta í þessu. Það á a.m.k. að hlána eitthvað á gamlársdag en það gæti snjóað fram að þeim tíma,“ segir Trausti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert