Breytingar á ríkisstjórninni ræddar

mbl.is / Hjörtur

Þingflokkar ríkisstjórnarflokkanna, Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, funda á morgun og þar verður lögð fram tillaga um breytingar á ríkisstjórninni. Þetta staðfestir þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Oddný G. Harðardóttir, í samtali við mbl.is.

Aðspurð sagðist hún þó ekki geta tjáð sig um það hvaða breytingar á ríkisstjórninni yrðu lagðar til og þá ekki síst vegna þess að hún vissi ekki hverjar þær væru.

Þá hefur verið boðað til fundar í flokksstjórn Samfylkingarinnar á morgun kl. 18:30 á Nordica Hótel vegna breytinga á ríkisstjórn. Vísað er í lög flokksins um að boða megi slíkan fund með sólarhringsfyrirvara og að bera eigi breytingar á starfandi ríkisstjórn undir flokksstjórn.

Fram kemur að einungis eitt mál sé á dagskrá fundarins, „áform um breytingar á ríkisstjórn.“

Vangaveltur hafa helst verið undanfarið um það hvort Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kunni að hverfa úr ríkisstjórninni og sömuleiðis Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.

Þá hefur einnig undir það síðasta verið rætt um að hugsanlega fái Hreyfingin einhverja ráðherrastóla komi hún inn í ríkisstjórnina, en viðræður hafa staðið yfir undanfarið um að hún veiti stjórninni stuðning með einum eða öðrum hætti.

mbl.is