Össur: Endurnýja þarf forystuna

Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir
Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, telur að Samfylkingin eigi að endurnýja forystu flokksins fyrir næstu kosningar. Þetta kemur fram í viðtali við Össur í Viðskiptablaðinu í dag.

„Það mun reynast flokki eins og Samfylkingunni [...] mjög erfitt að fara í gegnum næstu kosningar nema flokkurinn hafi náð að endurnýja sig, bæði forystuna og ekki síður hugmyndir sínar.“

Í blaðinu er ítarlegt viðtal við Össur þar sem hann fjallar um stöðu mála í íslenskum stjórnmálum í dag, þau fjölmörgu tækifæri sem Ísland stendur frammi fyrir, sáttarhug sinn vegna sjávarútvegsins og fl. Þá tjáir Össur sig í fyrsta sinn í mörg ár um landsfund Samfylkingarinnar 2005 þegar hann varð undir í formannskosningu.

Össur segir að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og núverandi formaður Samfylkingarinnar, hafi þurft að taka á sig margar hrinur áhlaupa og taka erfiðar ákvarðanir. Það hafi staðið á henni öll spjót en hún hafi siglt í gegnum þetta með miklum sóma eins og Össur orðar það. Hins vegar sé þörf á því að endurnýja bæði forystu flokksins sem og hugmyndafræði hans.

„Ég tel að þegar við endurnýjum forystuna eigi að fara niður um tvær kynslóðir og tefla fram ungum en reyndum leiðtoga,“ segir Össur og telur upp nokkurn hóp sem hann segir að í búi góð forystuefni. Þar nefnir Össur sérstaklega Katrínu Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert