„Ekki sami maður“

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, ávarpar félagsmenn á landsfundi. Mynd …
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, ávarpar félagsmenn á landsfundi. Mynd úr safni. mbl.is/Skapti

„Þetta er ekki sami maður og var í stjórnarandstöðu fyrir þremur árum“ segir Gísli Árnason, formaður Vinstri grænna í Skagafirði, í samtali við mbl.is um Steingrím J. Sigfússon, formann VG.

Hann segir flokksmenn VG í Húnavatnssýslu og Skagafirði séu orðnir afar þreyttir á afstöðu hans gagnvart Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Stjórnir Svæðisfélaga Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Húnavatnssýslu og Skagafirði harma það sem þær kalla valdníðslu Steingríms vegna áforma um að leggja niður ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðar vegna eindreginnar andstöðu Jóns við aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Þetta kemur fram í ályktun sem stjórnirnar hafa samþykkt.

„Afstaða ráðherrans [Jóns Bjarnasonar] í Evrópusambandsmálum stýrir þessum aðgerðum,“ segir Gísli. Það sé ekki virt sem komi fram í stjórnarsáttmálanum, að um að menn megi vera með frjálsar skoðanir og berjast fyrir þeim. Annað komi í ljós þegar á hólminn sé komið. Þá segir Gísli að svo virðist sem að Steingrímur hafi tekið þessa ákvörðun einn, í því sem valdníðslan fólgin. „Okkur sýnist sem stjórn flokksins komi að þessu eftirá,“ segir Gísli. 

„Ég held að það sé öllum ljóst, sem eitthvað hafa sett sig inni í þessi mál, að það er Evrópusambandsandstaða Jóns sem ræður þessum breytingum [á ríkisstjórninni] núna,“ segir Gísli. Það sé í það minnsta skilningur flokksmanna VG í Húnavatnssýslu og Skagafirði.

Aðspurður segist Gísli hafa orðið var við bæði reiði og kergju hjá mörgum. Þetta einskorðist ekki aðeins við félagsmenn í VG. „Allir eru svolítið hissa á þessari keyrslu. Það er alveg sama hvað gerist úti í hinum stóra heimi. Menn setja undir sig hausinn og æða áfram; líta ekki upp einu sinni,“ segir Gísli.

Áframhaldandi fylgistap

Aðspurður um viðbrögð flokksmanna við þessum aðgerðum segir Gísli: „Svona vinnubrögð halda ekki fólki í flokknum endalaust. En það veit enginn hvað gerist.“

Gísli segist vera orðinn langþreyttur á ástandinu. Hann vill hins vegar ekki gefa það upp hvort hann muni segja sig úr flokknum eður ei. „Flokkurinn er búinn að tapa félagsmönnum og þingmönnum í hrönnum undanfarin misseri. Mér sýnist engin breyting verða á því,“ segir Gísli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert