Vilja reisa virkjun við Hagavatn

Gervihnattaljósmynd af Íslandi sem geimferðastofun Bandaríkjanna (NASA) tók í september …
Gervihnattaljósmynd af Íslandi sem geimferðastofun Bandaríkjanna (NASA) tók í september sl. Á henni sést glögglega mikið sandfok sunnan Langjökuls við Hagavatn.

Íslensk vatnsorka hefur stofnað félagið Hagavatnsvirkjun ehf. en tilgangur félagsins, sem var stofnað í desember, er m.a. að reisa og eiga virkjun við Hagavatn sunnan Langjökuls. Stjórnarformaður Hagavatnsvirkjunar er Eyþór Arnalds.

„Þetta byrjar í raun og veru sem uppgræðsluverkefni, þ.e.a.s að endurheimta Hagavatn. Áður en menn komu auga á að það væri hægt að nýta þetta til raforkuframleiðslu þá voru menn að græða þarna upp sanda og leirur, sem eru mjög þurrar,“ segir Eyþór í samtali við mbl.is.

Aðspurður segir Eyþór að um hreina rennslisvirkjun sé að ræða, sem gæti framleitt um 20 megavött. Rafmagnið yrði líklega selt inn á raforkukerfið eða til stórnotenda. Eyþór tekur hins vegar fram að engin endanleg niðurstaða liggi fyrir í þeim efnum. Þá segir hann að það sé ekki búið að ákveða endanlega stærð á virkjuninni. Verkefnið sé hins vegar ekki það stórt í sniðum að það kalli á stórar framkvæmdir. 

Hagavatn rennur í Farið sem rennur í Sandvatn, og segir Eyþór að menn séu að horfa á að nýta fallið um Farið. „Það er ekki verið að fara í jöfnunarlón eða neitt slíkt, heldur einfaldlega að endurheimta vatnið sem var þarna áður.“

Minna sandfok

Í umsögn landeigenda í Úthlíðartorfu í Biskupstungum, sem nú er innan sveitarfélagsins Bláskógabyggðar, kemur fram að það hafi verið hagsmunamál landeigenda til margra ára að endurheimta fyrri hámarksstærð Hagavatns með stíflugerð til að hefta sandfok og endurheimta gróðurþekju á nærliggjandi svæðum.

Í minnisblaði um Hagavatnsvirkjun, frá 29. nóvember sl., segir að umhverfisáhrif virkjunar við Hagavatn mótist af því að stífla skarð sem myndaðist í jökulgarðinn fyrir um 80 árum. Þannig myndi uppistöðulón myndast sem yrði á sama stað og stöðuvatn sem hefði verið þar áður frá náttúrunnar hendi. Fyrri stærð Hagavatns yrði því endurheimt með framkvæmdinni. Þá sýni áætlanir að sandfok af svæðinu myndi minnka verulega.

Þá kemur fram í minnisblaðinu að Íslensk vatnsorka hafi samið um viljayfirlýsingu við stóriðjufyrirtæki um orkusölu frá Hagavatnsvirkjun. Fjármögnum beggja verkefna hafi verið undirbúin og heildarframlag framkvæmdanna sé af stærðargráðunni 15 milljarðar króna sem muni skapa störf fyrir um 600 manns á framkvæmdatíma.

Á hönnunarstigi

Eyþór segir að landeigendur, Bláskógabyggð og Landgræðsla ríkisins hafi sýnt verkefninu mikinn áhuga og að umsagnir hafi verið afar jákvæðar.

Árið 2007 fékk Orkuveita Reykjavíkur úthlutað rannsóknarleyfi til athugana á virkjunarvalkosti við Hagavatn en það verkefni stöðvaðist að sögn Eyþórs „Þá var farið í það, í samvinnu við landeigendur, að setja þetta félag á stofn.“ Það muni halda áfram með verkefnið.

„Þetta er í raun og veru á hönnunarstigi. Það er ekki komið neitt virkjunarleyfi eða neitt slíkt. Menn eru að þróa hugmyndina áfram og sjá að hún er í mikilli sátt við sitt nánasta umhverfi,“ segir Eyþór og bætir við að undirbúningsvinnan sé unnin í góðu samstarfi við heimamenn.

Meðstjórnendur í Hagavatnsvirkjun ehf. eru þeir Hörður Jónsson og Eiríkur Bragason, sem er jafnframt framkvæmdastjóri.

Sandvatn var stækkað til að hefta fok, eins og ráðgert …
Sandvatn var stækkað til að hefta fok, eins og ráðgert er um Hagavatn. mbl.is/RAX
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka