IKEA innkallar barnabelti

Antilop barnastóll.
Antilop barnastóll.

Sænski húsgagnaframleiðandinn IKEA hefur innkallað belti í svonefndum Antilop-barnastólum en tilkynningar hafa borist um um að beltið í stólnum geti opnast við notkun og skapað þannig slysahættu.

Alls hafa um 1,2 milljónir slíkra stóla verið framleiddar. Ylva Magnusson, talsmaður IKEA í Svíþjóð, segir að fyrirtækið hafi fengið átta kvartanir vegna þess að beltið í stólunum hefur opnast. Þrjú börn hafi hlotið minniháttar meiðsli vegna þessa.

Stólarnir hafa verið seldir í 46 löndum en gallinn er í stólum, sem framleiddir voru í Kína frá júlí 2007 til nóvember 2009 með framleiðslunúmeri 17389.

IKEA hefur einnig innkallað ELGÅ-skáp með Fenstad-rennihurð með spegli frá framleiðanda nr. 12650. IKEA hefur fengið tilkynningar um að spegillinn geti losnað af hurðinni og brotnað í beittar flísar. Vitað er um eitt tilvik þar sem viðskiptavinur skar sig.

Fleiri innkallanir má sjá á vef IKEA á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert