Skráði lögheimili í Ráðherrabústaðnum

Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu.
Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu. mbl.is

Karlmaður um fertugt braust í tvígang inn í Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu 32 í þessari viku, síðast í gærkvöldi. Þegar lögregla kom á staðinn og krafði hann um heimilisfang kom í ljós að hann hafði skráð lögheimili sitt í þjóðskrá í Ráðherrabústaðnum. Skráningin hefur síðan verið bakfærð að sögn Hauks Ingibergssonar, forstjóra Þjóðskrár Íslands.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu braut maðurinn í bæði skipti rúður í húsinu til að komast inn. Stal hann engu úr húsinu og þegar lögregla kom á staðinn sat hann þar og streittist ekki á móti þegar hann var fjarlægður. Gaf hann Tjarnargötu 32 upp sem heimilisfang sitt og við eftirgrennslan kom í ljós að hann var vissulega skráður með lögheimili þar.

Að sögn lögreglu virðist sem maðurinn hafi brotist inn í mótmælaskyni en hann telji sig órétti beittan af stjórnvöldum. Mál af þessu tagi séu ekki algeng.

Í fasteignaskrá er Ráðherrabústaðurinn skráður sem einbýlishús.

„Ég get staðfest það að einstaklingur tilkynnti sig til heimilis í Ráðherrabústaðnum. Stjórnvöld gerðu athugasemd við skráningu mannsins þar. Þá gerist það sem gerist þegar slíkar athugasemdir berast, þá könnum við málið og skráningin var bakfærð,“ segir Haukur Ingibergsson, forstjóri Þjóðskrár Íslands.

Tilvik af þessu tagi eru óalgeng að sögn Hauks en það megi ef til vill segja að það sé galli á lögunum um lögheimili að þar sé til dæmis ekki krafist samþykkis þinglýsts eiganda til að skráning til heimilis sé framkvæmd.

„Þar á móti kemur að það myndi auðvitað þyngja ferlið við skráningu til heimilis,“ segir Haukur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert