„Valdbeiting af verstu gerð“

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar

„Ríkisstjórnin er náttúrlega bara að vinna að því að þetta mál komist ekki á dagskrá þingsins. Þetta er náttúrlega bara valdbeiting af verstu gerð,“ segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Eins og fram hefur komið hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins lagt fram þingsályktunartillögu um að landsdómsákæran gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, verði dregin til baka.

Vigdís bendir á að fyrir liggi úrskurður um það að tillagan sé þingtæk. „Og þá á það mál að sjálfsögðu bara að hafa sinn gang eins og vera ber. Ég skil ekki hvaða rök eru fyrir því að hleypa tillögunni ekki á dagskrá þingsins. Og nú er ennfremur rætt um frávísunartillögu.“

Hún segir að það sé ótrúleg framganga hjá ríkisstjórninni að samþykkja að þingsályktunartillagan kæmist á dagskrá fyrir jól til þess að liðka fyrir þinghléi ef hún ætli síðan að ganga á bak þeim orðum núna.

Aðspurð hvernig hún hyggist greiða atkvæði um þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna segist Vigdís ekki ætla að gefa það upp strax enda viti hún ekki einu sinni hvort hún komist á dagskrá. Þess má geta að hún greiddi á sínum tíma atkvæði með því að Geir ásamt þremur öðrum fyrrverandi ráðherrum yrði ákærður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert