Biskupskjörið undirbúið

Höfuðstöðvar þjóðkirkjunnar við Laugaveg.
Höfuðstöðvar þjóðkirkjunnar við Laugaveg.

Kirkjuráð beindi í dag þeim tilmælum til kjörstjórnar við væntanlegt biskupskjör, að lögð yrði fram kjörskrá er miðaðist við 1. febrúar. 

Kirkjuráð ályktaði einnig að þau sem gefa kost á sér til biskupsembættis og þau sem vinna að kjöri þeirra gæti þess að halda í heiðri siðareglur embættismanna og starfsfólks þjóðkirkjunnar og gæti þess að orð þeirra og athafnir séu þjóðkirkjunni til sóma og málstað hennar til framdráttar.

Þá verði haldnir kynningarfundir í öllum landshlutum. Framkvæmdastjóri kirkjuráðs skipuleggi þessa fundi í samráði við héraðsnefndir, sem allir frambjóðendur og kosningabærir prestar og leikmenn prófastsdæmisins eru boðaðir til. Kostnaður við fundina greiðist úr kirkjumálasjóði. Ferðakostnaður fundarmanna og frambjóðenda er ekki greiddur.

Loks mun kirkjuráð gangast fyrir og kosta útgáfu á sameiginlegu kynningarefni um frambjóðendur til biskupskjörs. Jafnframt verði kynningarefni um frambjóðendur gert aðgengilegt á sérstöku vefsvæði á vef kirkjunnar. 

Kirkjuráð beinir því einnig til kjörstjórnar við biskupskjör að kjör vígslubiskups í Hólaumdæmi fari fram svo fljótt sem auðið er að loknu kjöri biskups Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina