Þörf á miklu umbótatímabili

Sigríður guðmarsdóttir,.sóknarprestur í Guðríðarkirkju:
Sigríður guðmarsdóttir,.sóknarprestur í Guðríðarkirkju: mbl.sÓmar

„Kirkjan þarf alltaf á siðbót að halda og framundan er þörf mikils umbótatímabils í Þjóðkirkjunni,“ segir í yfirlýsingu sem Sigríður Guðmarsdóttir sóknarprestur í Guðríðarkirkju hefur sent frá sér en hún greindi frá því í dag að hún hyggist gefa kost á sér til embættis biskups Íslands í kosningum næsta vor.

Sigríður segir að breytingarnar í þjóðkirkjunni hverfist um fjögur verkefni: „1. Samtal við þjóðina um trú og mannréttindi í fjölbreyttu samfélagi og að gera upp það sem aflaga hefur farið. 2. Styrkja tengslin við söfnuðina í landinu. 3. Dreifa valdi og efla lýðræði innan Þjóðkirkjunnar. 4. Koma að breytingum á stjórnkerfi Þjóðkirkjunnar með endurskipulagningu stofnana, öflugri starfsmannastefnu og gagnsærri stjórnsýslu,“ segir í yfirlýsingu hennar.

Hún segist munu gera ítarlegri grein fyrir þessum málefnum á heimasíðu sinni, www.sigridur.org, á næstunni.

Kosið verði að nýju til biskups innan 6 ára

„Mikil og vönduð stefnumótunarvinna fór fram í Þjóðkirkjunni árið 2003. Endurskoða þarf stefnumótunina í takt við nýjar aðstæður og hrinda henni í framkvæmd. Þessar breytingar geta gengið í gegn á fimm árum og ég mun beita mér fyrir því að kosið verði að nýju innan sex ára til biskups Íslands þegar lútherska kirkjan hefur fagnað 500 ára afmæli siðbótarinnar.

Þjóðkirkjan er mikilvægt afl í íslensku samfélagi og ég vil leggja mitt af mörkum til þess að hún þroskist í takt við nýja tíma. Til þess þarf táp og fjör, heilindi og hugrekki. Ég gef kost á mér með þessi gildi að leiðarljósi," segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert