Eiga í viðræðum við stjórnvöld

Forystumenn ASÍ á leið á fund með stjórnvöldum. Myndin er …
Forystumenn ASÍ á leið á fund með stjórnvöldum. Myndin er úr myndasafni. mbl.is/Golli

Samtöl hafa átt sér stað milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um að stjórnvöld komi til móts við þá gagnrýni að ríkisstjórnin hafi ekki staðið við fyrirheit sem hún gaf við gerð kjarasamninga. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, vonast eftir að eitthvað komi út úr þessum viðræðum.

Gylfi sagði að ASÍ hefði gagnrýnt harðlega skattlagningu á lífeyrissjóðina og það væri áköf krafa innan sambandsins um að þessu yrði breytt. Einnig legði ASÍ mikla áherslu á að ná til baka skerðingu almannatrygginga. Eins væri þrýst fast á um að farið væri út í tilraunaverkefni við atvinnuleitendur.

Erfiðasta málið er þó jöfnun lífeyrisréttinda sem ASÍ leggur mikla áherslu á. Ríkisstjórnin gaf í vor fyrirheit um að skref yrðu stigin í þá átt og Gylfi sagði að menn gengju að sjálfsögðu eftir efndum á því loforði.

mbl.is