Næstversta niðurstaðan

Þráinn Bertelsson á Alþingi í dag.
Þráinn Bertelsson á Alþingi í dag. mbl.is/Eggert

Þráinn Bertelsson, þingmaður VG, sagði á Alþingi í dag að þingið hefði haustið 2010 komist að næst verstu mögulegu niðurstöðunni þegar það ákvað að ákæra einn fyrrverandi ráðherra fyrir vanrækslu í aðdraganda hrunsins. Versta niðurstaðan hefði verið að ákæra engan.

Þráinn sagði að uppi væri lögfræðilegur ágreiningur um hvort þingið mætti draga ákæruna á hendur Geir H. Haarde til baka.

„Má ég draga þessa ákvörðun  til baka? Ég held að ég megi það ekki; að minnsta kosti hef ég ekki vissu um að ég væri að gera rétt ef ég gerði það," sagði Þráinn.  

Hann sagðist einnig þurfa að svara mjög stórri spurningu frá samvisku sinni ef þingið kemst að þeirri niðurstöðu að draga eigi ákæruna til baka.

„Ég hef unnið eið að stjórnarskrá lýðveldisins. Er mér þá sætt á þingi þar sem að meirihluti þingsins er þeirrar skoðunar að löggjafarvaldið megi skipta sér af dómsvaldinu. Um þetta verð ég, ef það fer þannig að ákærunni verður kippt til baka, að leita álits okkar bestu lögmanna. Því ég ætla ekki að sitja áfram á þingi ef það er viðtekin lögfræðileg skoðun að ég sé á þingi sem hikar ekki við að blanda sér inn í störf dómstóla. Ég trúi á réttarríkið, ófullkomið sem það er," sagði Þráinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina