Hafa ekki stjórn á þingflokkunum

Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Hvorki Jóhanna né Steingrímur J. Sigfússon hafa stjórn á þingflokkum sínum, klofningur magnast innan þingflokks vinstri-grænna og Björn Valur Gíslason þingflokksformaður sem spáði samþykkt frávísunartillögunnar reynist marklaus enda ræður hann yfir litlu öðru en stórum orðum.“

Þetta segir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, á heimasíðu sinni um niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar í gær á Alþingi þar sem hafnað var að taka af dagskrá þingsins þingsályktunartillögu um að draga landsdómsákæruna gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, til baka.

Björn gerir einnig að umfjöllunarefni sínu viðbrögð Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, þegar fréttamenn spurðu hana að lokinni atkvæðagreiðslunni hvaða áhrif niðurstaðan hefði á ríkisstjórnarsamstarfið. Svaraði Jóhanna því til að hún hefði ekki hugmynd um það hver áhrifin yrðu en vonaði að þau yrðu ekki slæm.

„Þessi orð forsætisráðherra einkennast ekki af miklu öryggi um framtíð stjórnarsamstarfsins. Tveir ráðherrar af átta í ríkisstjórninni og forseti alþingis greiddu atkvæði gegn skoðun forsætisráðherrans í þessu máli. Jóhanna hefur hins vegar enga burði til að beita þessa ráðamenn í stjórnarsamstarfinu pólitískum aga,“ segir hann.

Heimasíða Björns Bjarnasonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert