Heimsendir á jólum

Önnur myndin í röð stuttmynda sem Mbl Sjónvarp sýnir á sunnudögum í samvinnu við Kvikmyndaskóla Íslands er Christmess eftir Frosta Jón Runólfsson. Hann útskrifaðist af handrita og leikstjórnardeild vorið 2011 en hann hefur áður látið að sér kveða bæði í heimi kvikmynda og tónlistar. Nú síðast gerði hann heimildarmyndina Stansað dansað öskrað um hljómsveitina Grafík með Bjarna Grímssyni.


Frosti segir að Christmess sé einhver konar heimsendamynd, „ekki endilega að hætti Roland Emmerich en engu að síður stórslysamynd á sinn eigin hátt,“ segir hann en Emmerich hefur til dæmis gert myndirnar Independence Day og The Day After Tomorrow.


Myndin gerist á miðnætti þann 21. desember árið 2012 á fjórum mismunandi stöðum í heiminum, Belgíu, Íslandi, Rússlandi og Ameríku. „Við fylgjumst með fólkinu í sínu daglega lífi þegar ragnarökin skella á og skynjun þess á umhverfi sínu er mjög mismunandi,“ segir Frosti en þessi dagsetning er engin tilviljun því hann er að vísa til þess að Maya-indíánar  ásamt fleirum höfðu spáð heimsendi 22. desember 2012.

Í aðalhlutverkum eru Walter Geir Grímsson, María Birta Bjarnadóttir, Vanessa Terrazas og Grímur Þórðarson. Um kvikmyndatöku sá Bjarni Grímsson og Anton Máni Svansson sá um framleiðslu. Þetta er hins vegar líka fjölskylduframleiðsla því kærasta Frosta, Hrafnhildur Hólmgeirsdóttir sá um búninga og leikmynd.

Myndin er ekki við hæfi barna

mbl.is