„Við munum vanda okkur“

Valgerður Bjarnadóttir formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Valgerður Bjarnadóttir formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

„Við munum vanda okkur og gera þetta vel, en jafnframt reyna að hraða afgreiðslu málsins,“ segir Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, um það hversu langan tíma nefndin muni taka sér til að ræða tillögu um að málshöfðun gegn Geir H. Haarde verði afturkölluð.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kemur saman til fundar á þriðjudaginn og Valgerður segir að þá verði rætt um málsmeðferð og efnistök. Hún segir að hún muni ekki gera tillögu um að leitað verði eftir skriflegum umsögnum um málið vegna þess að það taki lengri tíma. Nefndin muni hins vegar óska eftir því að fá gesti til fundar. Hún segist sjálf vera með hugmyndir um sérfræðinga sem gagnlegt væri fyrir nefndina að ræða við og sagðist gera ráð fyrir að aðrir nefndarmenn væru einnig með hugmyndir um fleiri nöfn.

Valgerður sagði að búið væri að ákveða fundi í nefndinni á fimmtudag og föstudag, en þá hefði verið fyrirhugað að ræða um tillögur stjórnlagaráðs og umsagnir sem hafa borist um þær. „Það er hins vegar alltaf hægt að breyta dagskrá funda,“ sagði Valgerður en bætti við að mikil vinna væri framundan hjá nefndinni við að fara yfir tillögur stjórnlagaráðs.

Valgerður sagðist ekki treysta sér til að svara því hvað nefndin yrði lengi að fara yfir tillögu Bjarna Benediktssonar um afturköllun landsdómsmálsins. Eftir að nefndin væri búin að hitta gesti þyrfti hún að fara yfir málið á fundi og síðan þyrfti að skrifa nefndarálit.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert